« júní 2002 | Main | ágúst 2002 »

júlí 29, 2002

Lost Weekend - Steggjapartý, Moonboots og hjólatúr

Á föstudaginn var Siggi Palli stggjaður og tókst það með afbrigðum vel. Það skal tekið fram að vinahópurinn okkar hefur aldrei aðhyllst helv. steggjaveislurnar þar sem steggurinn er klæddur upp í Súpermann búning og látinn syngja á Ingólfstorgi eða eitthvað jafn frumlegt. Það sem við trúum hins vegar á er góður matur (mikið af honum) gott vín (mikið af því) og góður félagsskapur. Reyndar fórum Ég, Már, Kári, Bragi, Freyr & Bjarni með Sigga Palla upp í Öskjuhlíð þar sem við hlupum um eins og fávitar, skjótandi á hvorn annan með túttubyssum en það var nú mest megnis til að auka matarlystina. By the way, í Öskjuhlíð er allt morandi af kanínum eins og flestir vita. Þetta eru með afbrigðum gæf kvikindi og ef ekki hefði verið fyrir slaka hönnun túttubyssunnar minnar og lélega hittni hefðum við eflaust borðað kanínukássu um kvöldið.

En því var nú ekki að heilsa og urðum við því að láta okkur nægja 5 kíló (!) af nautalundum sem Högni matreiddi af allkunnri kostgæfni á gasgrilli sem var flutt með snarhasti á Norðurstíginn og skellt upp á svalirnar til Jósa. Honum til fulltingis voru Siggi Ingi og Bragi, sem galdraði fram mjög áhugaverðan eftirrétt, súkkulaði-sushi : )
Högni og co. höfðu hafið undirbúning á meðan við fífluðumst í Öskjuhlíðinni og þegar heim var komið höfðu gestir safnast saman í íbúðinni hans Jósa og var setið þar að sumbli. Loks var sest til borðs í stofunni hjá mér og hef ég sjaldan smakkað aðrar eins lystisemdir. Við átum, drukkum og hlustuðum á góða tónlist (sem og slæma) og leið kvöldið jafn ljúflega og rauðvínið sem borið var fram með matnum. Þegar klukkan var að nálgast tvö var haldið í bæinn en sökum þreytu (!) hafði ég lítið úthald til skemmtana og fór því snemma að sofa.

Laugardagurinn fór nú mestmegnis í vitleysu hjá mér, sem náði þó hámarki þegar ég kíkti á sumardelluna Reign Of Fire í bíó. Samt var þetta nú ágætis ræma, meira um það seinna. Um kvöldið kíkti ég svo á þá Moonboots menn á Vídalín, þar var allt troðið út að dyrum, sennilega vegna þess að ekki var opið upp á efri hæð staðarins. Það eru víst komnir nýjir rekstraraðilar á Vídalín og þetta hlýtur að hafa verið ákvörðun hjá þeim.....whatever

Sunnudagurinn kom með sól í heiði og sem að ég var nývaknaður kemur Helgi aðvífandi ásamt Nínu skvísu, bæði á hjólum, sumarleg og brosandi. Ég ákvað að slást í hópinn með þeim og hjóluðum við sem leið lá út að Gróttu og svo þaðan út í Skerjafjörð. Í Skerjafirði skoðuðum við tilvonandi (kannski) bæjarstæði Kára "Decode your ass" Stefánssonar og dáðumst að hreðjastærð mannsins. Grunnurinn sem hefur verið grafinn fyrir tilvonandi slotið er á stærð við meðalstóra verslunarmiðstöð og er það víst fittandi egóinu hans Kára klára. Samt eru nú bæjaryfirvöld eitthvað búin að grípa í taumana og eru byggingarframkvæmdir í hálfgerðu limbói á meðan....Keep fighting The Man, Kári!

Nú er mánudagur og ég er kominn í sumarfrí, part 2. Mér leist svo vel á þennan eina dag sem ég tók um daginn að ég ákvað að biðja yfirmennina um meiri frí. Herre Gud, kemst ég ekki bara að því að ég á tæpar þrjár vikur af fríi! Jænxúg, þetta er sannarlega land tækifæranna. Ég tek mér eina viku til að byrja með og ætla ekki að gera nokkurn skapaðan hlut. Hmmmm...kannski ég æfi upp James Cagney taktana mína, and if you don't like it you can stick it where the sun don't shine dollface!

Posted by Stebbi at 03:38 EH | Comments (2)

júlí 26, 2002

Svartklæddir sauðir

Fór að sjá Men In Black 2 á mánudaginn, þar fór 800 kall. Meira um það hérna.

Posted by Stebbi at 09:29 FH | Comments (0)

The long and winding road.....to hell!

Ég var að keyra Sóleyjargötuna í gær ásamt Auði systur minni og lenti á eftir bifreið sem var ekið vægast sagt undarlega. Bíllinn sveigði til og frá og hægði og hraðaði á sér á víxl. Ég þóttist kannast við ökulagið, þekkti öll merki þess að ökumaður væri að blaðra í farsíma (ósiður sem við höfum flest gerst sek um). Þegar ég staðnæmdist við hliðina á druslunni á ljósunum við Njarðargötu sá ég ástæðuna. Bílstjórinn, kona á fimmtugsaldri, var að puðast við að senda SMS skilaboð!!!

Dísös kræst!!!!

Ókei, það er nógu slæmt að baula eitthvað í farsíma á meðan maður keyrir, bæði hættulegt og bannað með lögum. En fullorðið fólk, sem by the way býr ekki yfir einum hundraðasta af SMS-innstimplunarhæfileikum nútíma unglinga, ætti að vita margfalt betur. Ég er sjálfur orðinn það gamall í hettunni að ég þarf að horfa á skjáinn meðan ég stimpla skilaboðin, nokkuð sem gerir út af við aksturstilraunir á meðan. Ég ætla að vona að þessi kona sé farin að þróa með sér hæfileika til að stimpla inn ástkæru smáskilaboðin sín með tannstöngli milli tannanna, það er víst ómetanlegur hæfileiki að búa yfir þegar maður hefur endað upp í hjólastól, lamaður fyrir neðan háls vegna þess að maður tók ekki eftir leið 112 sem kom úr gagnstæðri átt.

Sæl að sinni.

Posted by Stebbi at 08:16 FH | Comments (0)

júlí 25, 2002

Sumarfríið ógurlega

Tók mér sumarfríið mitt í gær, reyndar ekki allt saman en þar sem ég er að drepast úr blankheitum mun örugglega lítið verða um útlandaferðir á næstunni. Auk þess er alltaf gaman að eiga inni frídaga þegar kaldir vetrardagar sækja að og maður bara nennir ekki upp úr rúminu. Anyways, Siggi Palli er að fara gifta sig á laugardaginn.....Another one bites the dust. Nei, bara spaug......May all your futures be pleasant ones, not like our present ones : )

Posted by Stebbi at 01:09 EH | Comments (5)

júlí 23, 2002

samurai - Villta, Villta Reyjavík

Jæja, þetta las ég í dagbók lögreglunnar: "Lögreglan hafði afskipti af manni sem hafði veist að sambýliskonu sinni í miðborginni og vegfarendur þá komið henni til hjálpar. Maðurinn hafði farið heim til sín en hann bjó skammt frá og sótt sverð. Veitti hann manni sem hafði komið sambýliskonu hans hjálpar áverka á læri og í andliti."
Það kemur ekki fram í dagbókinni er að samurai sverðið góða brotnaði í þrennt í átökunum (ég las það í einhverjum pappírsmiðli). Annað hvort hefur fórnarlambið verið svona andskoti harðgert eða það sem líklegra er, samurai sverðið skítasmíð. They don't make 'em like they used to.

En fyrst minnst er á þjóna laganna verð ég að deila með lesendum atburðum aðfaranætur mánudagsins. Ég var á rölti heim, klukkan ca. tvö að morgni. Sem ég nálgast Naustið sé ég þar tvo skuggalega menn hangsandi fyrir framan húsið. Allt í einu drífur að lögreglubíl og bjóst ég við því að tvíeykið tæki til fótanna. En nei, þeir taka tal af lögreglumönnunum og sé ég þá að þessir óeinkennisklæddu halda á vasaljósum og talstöðvum. Þeir tóku á rás ásamt öðrum búningnum en hinn sneri bílnum við og stefndi á Norðurstíginn. Þríeykið pukraðist eitthvað fyrir aftan hús Jóns Geirs og Nönnu og hljóp síðan yfir bílastæðið hjá Vesturporti og inn í innakstursportið hjá húsinu mínu.

Löggubíllinn var þá að reyna að aka inn portið en gekk ekkert. Ég stóð hjá og beið þolinmóður en veslings lögreglumaðurinn var orðinn frekar stressaður og juggaði sífellt fram og til baka, allt til einskis. Ég nennti loks ekki að bíða eftir að Michael Shumacher kæmist inn í portið svo að ég klofaði framhjá löggubílnum og vinkaði löggumanninum (sem gaf mér lúkk dauðans). Þegar ég opnaði útidyrahurðina og gekk inn sá ég lögreglumennina í portinu, skimandi um allt með vasaljósunum sínum, svona rétt eins og í X-Files, og blaðrandi í talstöðvarnar. Ég hef ekki enn komist að því hvaða erindi þeir áttu í litla friðsæla portið mitt, kannski bárust þeim njósnir af Falum Gong mótmælum mínum og hef ég því trúlega sloppið með skrekkinn......

Posted by Stebbi at 01:43 EH | Comments (2)

Hello, Hello, is there anybody

Eftir mikið vesen virðist ég vera kominn aftur til Bloggheima.....

Posted by Stebbi at 09:44 FH | Comments (4)

Hjálp, ég get ekki bloggað!!

Hjálp, ég get ekki bloggað!!

Posted by Stebbi at 09:10 FH | Comments (0)

júlí 22, 2002

Helv. Blogger!

Helv. Blogger!

Posted by Stebbi at 01:54 EH | Comments (0)

júlí 17, 2002

Til hamingju

Til hamingju, Már og Stína!

Posted by Stebbi at 06:36 EH | Comments (0)

júlí 11, 2002

Boys night

Nei, þetta er ekki titill á hommaklámmynd heldur pókerkvöld okkar strákanna. Við söfnuðumst saman heima hjá Svabba, kona og barn farin í heimsókn vestur, og spiluðum póker, reyktum vindla og drukkum töluvert magn af áfengi. Mættir voru Ég, Svabbi, Tóti, Kári, Siggi Palli og Högni. Seinna meir bættust Jósi og Helgi í hópinn. Undir spilunum var svo rætt landsins gagn og málefni, s.s. fjárlagahallinn, utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar, stelpur með stór brjóst og kostir og gallar kvótakerfisins. Framan að gekk mér heldur illa í spilunum sökum eigin molbúaháttar og fjölkyngi mótspilara minna.

Þegar leið á kvöldið fór gæfan að snúast mér í vil og slúttaði ég spilinu með einu fernu kvöldsins, rétt eins og sveitalubbinn sem tapar mestallt kvöldið en ginnir svo atvinnumennina í risastóran pott sem hann og hirðir. Félagar mínir tóku endalokunum þó ekki illa og þurfti ég því ekki að grípa til marghleypnanna eða stökkva út um glugga. Það er langt síðan að við höfum safnast svona saman, allir vinirnir, og látið allt flakka í góðra manna hópi. Víst er að það er missir að svona samverukvöldum, nú þegar við erum orðnir ráðsettir samfélagsþegnar, vammlausir og siðprúðir.

Mér segir svo hugur að við eigum eftir að líta aftur til baka á þetta kvöld og minnast þess sem Meatloaf söng svo eftirminnilega í laginu Paradise By The Dashboard Light: "it was long ago and it was far away and it was so much better than it is today"

Sæl að sinni

Posted by Stebbi at 09:20 FH | Comments (3)

júlí 10, 2002

Hundar og hasshausar

Hvað fannst Logan um Scooby Doo? Kíkið á umsögnina.

Scooby Doo

Posted by Stebbi at 10:06 FH | Comments (0)

tíkur og peningar

Ég er gæddur þeim leiða ávana að hlusta stundum á samtöl annara, þökk sé hundaheyrn minni. Oftast á þetta sér þó stað í strætó og held ég að þetta sé einhvers konar varnarmekanismi til að hindra að ég deyji úr leiðindum. Í fyrradag sat ég svo í strætisvagni á leið í sund þegar ég heyrði á samtal tveggja kvenna á besta aldri. Þær voru að tala um einhverja "tík" og hversu erfið tíkin gæti verið. Sú fyrri lét samt í veðri vaka að þetta væri nú góð tík og það væri synd að selja hana! Upp úr þessu spunnust miklar samræður um hvernig væri hægt að venja tíkina af ósiðunum því eftir allt saman þá væri þetta verðmæt tík og sárt að missa hana. Niðurstaðan varð að nú skildi tíkinni gefinn síðasti séns, ellegar yrði hún seld fyrir fjall af peningum. Einhvers staðar í áheyrninni áttaði ég mig á að þessar tvær öðlings konur voru að tala um hund, ekki manneskju, en framan af var mig farið að gruna að hér væru komnar tvær eitilharðar gettó-ömmur sem aðhylltust speki Ice-Cube: "life ain't nothin' but bitches and money!"

Heil og sæl....

Posted by Stebbi at 08:43 FH | Comments (2)

júlí 09, 2002

Trékyllisvík - The Whole Truth And Nothing But..

Jæja börnin góð, hef ekki bloggað í nokkra daga sökum fjarveru. Er nú snúinn aftur, heill á húfi og hér á eftir fylgir mest megnis sönn útgáfa af ferðinni frægu til Trékyllisvíkur....


Ferðasagan ógurlega

Við Steini rótari lögðum af stað úr bænum upp úr átta og stefndum í Borgarnes þar sem Jón Geir trommari, Nanna og Rannveig vinkona þeirra hittu okkur á túristasjoppunni áður en haldið var í einn krúttlegasta sumarbústað sem ég hef nokkurn tíma komið í, Aulastaðakot. Í kotinu galdraði Steini svo fram einn besta grillmat sem ég hef fengið í háa herrans tíð. Eftir að hafa gætt okkur á lystisemdunum var tekið í spil og rústaði undirritaður samkeppninni í Gettu Betur. Eftir þó nokkra bjóra og rauðvínsglös var haldið í háttinn og gisti höfundur í efri koju í fyrsta skiptið í mörg ár. Það var lítið sofið þá nóttina af ótta við að detta niður og hálsbrotna.

Föstudagur 05/07

Við dröttuðumst á fætur um hádegisbil og kvöddum Steina sem hélt glaðbeittur til Reykjavíkur til að róta á Moonbootstónleikum á Sport-Kaffi (guð sé oss næstur!). Ég flutti hafurtask mitt snarlega yfir í Subaruinn góða sem Jón og Nanna voru á og haldið var í sund á Varmá í Borgarfirði. Þar sá ég eina minnstu vatnsrennibraut ever, tæplega tveir metrar á hæð og undin eins og gömul kartöfluflaga. Ekki var það heldur traustvekjandi að málningin virtist hafa flagnað töluvert svo að þeir rassar sem hætta sér niður kvikindið koma ekki heilir frá reynslunni. Við létum það alveg vera að prófa þennan rennibrautargarm. Laugin var hins vegar notaleg og vorum við svo gott sem einsömul í henni.

Eftir sundið lá leiðin í Hreðavatnsskála, stað elskenda, þar sem flestum var farið að svengja í þjóðvegaborgara. Þó var Jón Geir ekki upp á sitt hressasta og er skemmst frá því að segja að eftir stutta setu inn í Hreðavatnsskála tók hann á rás og skilaði því litla sem hann hafði náð að borða, á hlaðið fyrir utan sjoppuna. Að hans eigin sögn mun bíll með einhverjum túrhestum hafa stoppað fyrir utan sjoppuna en snarlega hætt við að nærast á stað elskenda þegar við þeim blasti hálfdauður trommari, grænn í framan og ælandi úr sér lifur og lungum. Jón Geir tók þó gleði sína aftur þegar haldið var út á þjóðveginn og þegar komið var á Brú tók hann við stýrinu af Nönnu og var haldið sem leið lá til Hólmavíkur.

Undir keyrslunni var spilaður hljómdiskurinn Óskalögin 5 með smellum eins og Á Puttanum, Úti Alla Nóttina, Fjólublátt Ljós Við Barinn og Ég Fer Í Fríið. Undir þessum yndishljómum varð leiðin til Hólmavíkur létt og leikandi. Við renndum inn í Hólmavík upp úr hálfsex og ákváðum við Rannveig að skoða Galdrasýninguna á Ströndum þar sem galdrasaga á Íslandi er rakin og ýmsir forvitnilegir munir tengdir göldrum og galdraofsóknum eru til sýnis. Ég komst í framhaldi af því, eftir samtali við karl föður minn að ég er kominn af Þorleifi Kortssyni, lögmanni og síðar sýslumanni sem sendi ófáan mann á bálköstinn hér forðum. Það hlaut eitthvað að vera....

Eftir að hafa snætt kvöldverð á Cafe Riis var keyrt sem leið lá til Djúpuvíkur og komum við þangað rétt upp úr átta um kvöldið og var okkur tekið af miklum vinskap á Hótel Djúpavík. Okkur var úthlutað herbergi með tveimur kojum (ég tók í þetta skipti neðri koju) með alveg frábæru útsýni yfir fjörðinn. Eftir að hafa komið okkur fyrir skoðuðum við Síldarverksmiðjuna á Djúpuvík, alveg hreint undarlega áhrifamikið mannvirki. Verksmiðjan var byggð af 30 manna hópi á einu ári og tekin í notkun árið 1935. Hún var á blómaskeiði sínu stærsta síldarvinnslustöð á landinu og ein sú fullkomnasta í Evrópu. Það er töluverð upplifun að skoða verksmiðjuna þó að hún hafi nokkuð látið á sjá. Þetta ofurmannvirki var byggt í útnára heimsins af jöxlum sem létu vegaleysi ekki aftra sér. Allt var flutt með skipum og byggt með berum höndum. Maður fyllist lotningu sem og minnimáttarkennd þegar maður sér svona vitnisburð um íslenska framtaksemi og hugvit. Er út úr verksmiðjunni var komið kíktum við inn í einn af þremur steinsteyptum vatnstönkum sem voru byggðir með verksmiðjunni fyrir hartnær 70 árum. Jón Geir (sem og við öll) hreifst mjög af hljómburðinum inni í tankinum og var ákveðið að Áslaug söngkona skyldi verða fengin til að taka þar lagið seinna um kvöldið.

Eftir skoðunarferðina héldum við aftur inn á hótelið og áttum við þar notalega kvöldstund í félagsskap danskra ferðalanga og leiðsögukvenna þeirra. Sönghefti voru látin ganga og var sungið af lífs og sálar kröftum, bæði þekktir íslenskir slagarar sem og tyrfin dönsk sönglög. Um miðnætti mættu svo Áslaug og Matti hljómborðsleikari og var öllu selskapinu stefnt inn í gamla vatnstankinn þar sem við sátum í sátt og samlyndi í steinsteypurykinu og hlustuðum á Áslaugu syngja. Inn á milli voru svo gamlir slagarar teknir í hópsöng og ótæpilega drukkið af koníaki, rauðvíni og bjór. Um þrjúleytið var svo stefnt í háttinn. Ég átti víst eftir að minnast á að undir húsinu okkar rann lækur, svo gott sem beint fyrir neðan svefnherbergið okkar og var það frekar notalegt að sofna við lækjarniðinn.

Laugardagur 07/07

Við vöknuðum seint á laugardag eftir ljúfan nætursvefn og slæptumst eitthvað um fram eftir degi þangað til ákveðið var að hrista af sér slenið með ferð í sundlaugina í Krossnesi og koma við í kaupfélaginu á Norðurfirði. Við pökkuðum því draslinu okkar saman og kvöddum Djúpavíkurbúa og þökkuðum þeim gestristnina. Síðan var keyrt sem leið lá til Trékyllisvíkur en þar sem við vorum í tímaþröng (kaupfélagið í Norðurfirði lokar kl. 17:00 á laugardögum) þurftum við að bíða með að heilsa upp á Steina Rót og Snorra Hergil bassaleikara sem voru nýkomnir að sunnan. Við fylltum á matarbirgðir í kuffinu og héldum síðan út í Krossnes. Sundlaugin þar er algjör snilld, staðsett niðrí fjöruborði þannig að þegar maður er komin ofan í er svo gott sem hægt að snerta hafið. Útsýnið er unaðslegt og laugin er skemmtilega heit, þetta er reyndar eins og að synda í heimsins stærsta heita potti. Þarna lét ég reyna á einnota, vatnsheldu AGFA myndavélina sem ég keypti á heilar 799 krónur í Hagkaupum og er skemmst að segja frá því að sundmyndirnar komu skemmtilega út, sérstaklega myndirnar af Jóni æfandi sig fyrir Ólympíumótið í sund-dansi.

Við héldum sem leið lá tilbaka til Trékyllisvíkur þar sem hljómsveitin var svo gott sem samankomin. Snorri Hergill bassaleikari, Þráinn gítarleikari og Berglind kærasta hans, Matti hljómborðsleikari og Áslaug söngkona að ógleymdum listasundsdansaranum og trommaranum Jóni Geir. Eftir að hafa nært okkur skruppum við Jón Geir í labbitúr niður við fjöru í miðju kríuvarpinu. Þar spígsporuðum við um (varlega þó, ungar og egg út um allt) og mönuðum þessi geðbiluðu kvikindi að ráðast á okkur. Ekki tókst þeim að gata á okkur hausinn en Jón Geir var þó hæfður með saurskeyti. Seinna um kvöldið birtist svo Bragi rytmagítarleikari og var þá haldin hljóðprufa í félagsheimili staðarins. Ég hafði í millitíðinni tjaldað litla tveggja manna Hagkaupstjaldinu mínu úti á túni en þegar nær dró ballinu var ég kominn með hóp af misgóðum nágrönnum og barmaði ég sjálfum mér fyrir að hafa ekki tjaldað fjarri félagsheimilinu. Sem að ég sat í öngum mínum birtist Karl Sigurðsson öðlingur við fjórða mann og voru þeir ekki lengi að kippa tjaldinu mínu upp í heilu lagi og flytja það um holt og heiðar upp að sínu tjaldi, langt frá mannabyggð. Fyrir það skal þeim piltum þakkað enn og aftur!

Ballið hófst á slaginu 11:58 og var vel mætt í félagsheimilið á trékyllisvík, fólk á öllum aldri (18-25 þó í meirihluta) kom og var ekta sveitaballsstemmning í loftinu. Bandið hljómaði vel og gátu heimamenn endalaust djammað við stórsmelli eins og Kavíar, Run To The Hills, 500 Miles og I'm A Believer. Eftir þrjá sveitta og rokkaða klukkutíma var ég tognaður í dansvöðvanum og eftir að ballið kláraðist var safnast saman á tröppum félagsheimilisins í eitt það súrasta eftirgiggsdjamm sem ég hef séð. Þar sem ekki tókst að redda kassagítar, sat Jón Geir í fríðum hóp með sneriltrommu og þrykkti út fjöldan öllum af slögurum. Um fimmleytið tók fólk þó á sig náðir og fóru allir sáttir í háttinn. Ég bjó um mig í litla tjaldinu mínu og hélt á vit draumanna.

Sunnudagur 07/07

Þegar ég vaknaði í fyrra skiptið á sunnudeginum skrönglaðist ég út úr tjaldinu og hafði ekki hugmynd hvað klukkan var, gemsinn í bílnum og sjálfur hef ég ekki gengið með klukku í mörg ár. Mér sýndist þó á öllu að hún væri eitthvað í kringum hálfsjö, ekki kjaftur á kreiki og allt þögult sem gröfin. Ég fékk mér stuttan göngutúr um stórborgina Trékyllisvík og virti fyrir mér kirkjur staðarins, þá gömlu og þá nýju. Mér skilst að sú eldri hafi verið komin í töluverða niðurníslu og söfnuðurinn hafi klofnað í tvennt varðandi ákvörðun um að gera gömlu kirkjuna upp eða byggja nýja. Á endanum fengu báðir hópar sínu framgengt og nú býður þetta litla pláss sem telur í mesta lagi hundrað hræður upp á heilar tvær kirkjur. Trúarsetrin tvö eru þó eins og nótt og dagur, eldri kirkjan er sæt, lítil sveitakirkja eins og þær gerast bestar en sú nýja lítur helst út eins og sænsk skólphreinsistöð, hönnuð af IKEA-arkitekt í klóm heróínfíknar. Eftir að hafa virt fyrir mér dásemdina og viðbjóðinn hélt ég aftur til tjalds og lúllaði fram að hádegi.

Er ég vaknaði lallaði ég upp að skólahúsi staðarins en þar voru geymdir hljómsveitarmeðlimir og spúsur þeirra. Þar hitti ég fyrir Matta og Áslaugu, þynnkuleg og hress sem og Jón Geir, Nönnu og Rannveigu sem voru að innbyrða Formúluskammtinn sinn. Fljótlega komst þó ferðahugur í fólk og var ákveðið að ég og Rannveig skildum fara með Snorra og Steina Rót þar sem að Jón Geir og Nanna voru komin í sumarfrí og alls ekki á leiðinni aftur suður. Farangur var enn og aftur fluttur milli bifreiða og svo var haldið af stað. Steini keyrði af stakri atvinnumennsku og var ferðin laus við uppákomur. Þar til að...

Steini stöðvaði bílinn til að bíða eftir vegavinnugröfu sem blokkeraði veginn. Gröfukallinn tók sig til og færði apparatið sitt hægt og rólega svo að Steini gæti smeygt Fiatinum sínum framhjá. En þegar átti að ræsa bílinn aftur heyrðist bara hikst og stam. Reynt var aftur og aftur en allt kom fyrir ekkert, skrjóðurinn vildi ekki í gang. Fljótlega dreif að vegavinnumenn sem buðu fram aðstoð sína og var bíllinn dreginn upp að nálægu gistiheimili þar sem hljómsveitarmeðlimur söfnuðust saman og lagt var á ráðin. Það varð úr að ég og Rannveig fengum far með Þráni og Berglindi og dráttarbíll yrði sendur eftir Fiatinum hans Steina. Steini og Snorri fengu far með Jóni Geir og Nönnu til Brúar þar sem Helgi Guðbjartsson trommari og engill sótti þá.

Ferðin heim var tíðindalítil en ljúf og var hlustað á ljúfa tóna Iron Maiden og Metallicu. Eftir að hafa stoppað á Brú (bad idea, allir og amma hans voru mættir í kvöldmat) var keyrt sem leið lá til Reykjavíkur. Merkilegt hvað þessi leið, sem virtist svo endalaus þegar maður var yngri, flýgur áfram á no time nú þegar maður er kominn til vits og ára. Kannski er það vegna þess að á mínum yngri árum var ekki spiluð jafnfjölbreytt flóra tónlistar í bíl foreldra minna. Það er fátt jafnfallegt og að krúsa í gegnum Borgarfjörðinn með yndisþýða óma James Hetfield og félaga í botni. Gamanið kárnaði örlítið þegar við komum að Hvalfjarðargöngum og var tilkynnt um 1 1/2 tíma bið. Við ákváðum að láta reyna á Hvalfjörðinn (aldrei aftur, var ég búinn að lofa sjálfum mér) en eftir malardrusluvegina á Ströndum var Hvalfjörðurinn meira eins og notaleg kappakstursbraut. Veðrið var lék við okkur á leið okkar um fjörðinn og þegar við rúlluðum inn í Reykjavík glampaði kvöldsólin eins og gull í roði (djö. er ég ljóðrænn).

Ég dröslaði draslinu heim og lagðist útaf, þreyttur og sæll eftir ævintýri helgarinnar.

The End

Posted by Stebbi at 10:48 FH | Comments (1)

júlí 04, 2002

Johnsen á Hraunið

Ég vissi svo sem alltaf að Árni Johnsen mundi enda í steininum en þó hélt ég að það yrði vegna tónlistarglæpa gegn mannkyninu. Það gladdi því litla mitt litla hjarta þegar ég las að ex-þingmaðurinn knái frá Vestmannaeyjum (plássið sem gat af sér Betel, Ása í Bæ, sprang og Þjóðhátíð) hafi unnið sér inn 15 mánaða setu í Stóra Húsinu, og óskilorðsbundinn dóm í þokkabót! Vissulega segir samviska mín (litla ógreinilega röddin sem er svo auðvelt að þagga niðrí) að það sé rangt að hlakka yfir óförum annara en Árni Johnsen kom sér í þessa aðstöðu algjörlega upp sitt einsdæmi. Það hefði kannski verið bót í máli ef hann hefði viðurkennt misgjörðir sínar undireins, svona líkt og bandarískir sjónvarpspredikarar gera þegar upp kemst að þeir hafa haldið framhjá konum sínum með 15 ára gospelstelpum. Það hefði óneitanlega verið áhugavert að sjá Árna í beinni útsendingu, tárin rennandi niður kinnarnar, grátbiðjandi kjósendur um annað tækifæri, Jim Bakker style. En það verðu ekki á allt kosið, þess í stað þurftum við að horfa upp á Árna gerandi sig að síendurteknu fífli fyrir framan myndavélar og í blaðagreinum, kennandi öllum og ömmu þeirra um ófarir sínar og blaðrandi um fjölmiðlasamsæri. Guði sé lof að þessi vitleysa hefur skilað einhverri jákvæðri niðurstöðu, bæði fyrir íslenskan almenning og Árna sjálfan. Nú mun hann geta ræktað tengsl við nýjan hóp hugsanlegra kjósenda og unnið hug og hjörtu þeirra með ljúfum gítarnótum. Að lokum, ein ábending til Árna: Ef þú missir sápuna í sturtunni, let it go.

Posted by Stebbi at 11:28 FH | Comments (2)

júlí 02, 2002

Engir skoskir vælukjóar fyrir Stebba

Ég fer víst ekki á tónleika með Bay City Rollers.....eh....ég meina hinu fræga skoska bandinu, Travis. Þess í stað fer ég örlítið fyrr til partýplássins Trékyllisvík með Jön Geir og Nönnu. Allir saman nú, Willie Nelson í spilarann og: "On the road again, just can't wait to get on the road again......"

Posted by Stebbi at 04:13 EH | Comments (8)

Forstjóraskipti og Trékyllisvík

Jæja, önnur vinnuvika hafin og nýr forstjóri tekinn við í fyrirtækinu. Það er samt alveg leyndó hvar ég vinn (hint: nafnið byrjar á Lands og endar á síminn). Nýji forstjórinn virtist einkar viðkunnalegur og mikið snyrtimenni. Mér skilst að hann hafi verið kapteinn á hentifánalínubát austan við Svalbarða áður en hann tók við stýrinu á Landssímaskútunni. Vonandi mun hann stýra fleyinu varlega í gegnum viðskiptalífsins ólgusjó og ekki Granda okkur! Hahahahahahah......eh....um...

Anyways, um helgina skal stefnan tekin til Trékyllisvíkur þar sem stuðboltarnir í hljómsveitinni Kalk munu spila fyrir hóp rokkþyrstra Trékyllisvíkinga og nærsveitarfólk. Að sögn Jóns Geirs trommara sveitarinnar og Nönnu, kærustunnar hans, er alveg svaðalegt djamm í gangi þarna og vel virði 7 tíma keyrslunnar!! Ég fer þó aðallega með af forvitni vegna þess að ég hef aldrei komið vestur. Ég hef farið fram og til baka um norðurland og einnig verið eitthvað fyrir austan en vesturhluti Íslands er mér ólesin bók og er merktur í landabréfabók Stebba með drekum og öðrum ófreskjum. Fróðlegt að sjá hvort að Vesturland standi undir væntingum mínum......meira um það seinna.

Posted by Stebbi at 01:11 EH | Comments (4)