ágúst 06, 2002

ÓKEYPIS ENSKUNÁMSKEIÐ - Jeff er kominn úr fríi

Jæja, þá er sumarfríi pt. 2 lokið og ég snúinn aftur til vinnu, endurnærður og afslappaður eftir heila viku af iðjuleysi. Kræst, ég kann svo illa við að vera iðjulaus utan vinnunar, kann það varla. Anyways, vikan búin að vera dásamleg og verslunarmannahelgin tíðindalaus. Ákvað að halda til í Reykjavík um helgina og heimsækja Moonboots á Sportkaffi. Þar var mikið fjör laugardag og sunnudag, sunnudagurinn var þó heldur dapur hjá mér sökum þynnku. Samt náði ég nú að drösla mér upp á svið að taka Paradise By The Dashboard Light í fimmta skipti með Moonbootsingum (hver veit, kannski mun ég einhvern tíma læra textann utanað). Næsta stopp fyrir þá stráka er Gaukurinn, 24. ágúst.....Be there or ye be square.

Í morgun fiskaði ég upp úr póstkassanum mínum mjög svo undarlegan miða sem hér birtist endurprentaður í heild sinni:

"Héðan í frá munum við kenna ENSKU, án endurgjalds, þar sem áhersla er
lögð á talað mál, framburð, orðaforða, og amerísk húmor.
Kennararnir eru tveir amerískir trúboðar. Gjörðu svo vel og hafðu
samband við okkur:
Sími 561 6463 Alba og Ricks
(best er að ná sambandi við okkur kl. 7-11, 21-22)
Námskeiðið verður kennt alla miðvikudaga kl. 19:30-20:30
Ásabraut 2-Garðabær VERIÐ VELKOMIN"


Eftir nokkra eftirgrennslan komst ég að því að þetta námskeið er á vegum Kirkju Jesú Krists Hinna Síðari Daga Heilögu, en meðlimir hennar eru oftast kallaðir mormónar. Þessi blessuðu, jakkafataklæddu grey hafa líklega hjólað um allan vesturbæinn til að breiða út þetta fagnaðarerindi, ENSKA án endurgjalds. Ég þakka gott boð öldungur Johnson og öldungur Smith, en enskan mín er í fínu lagi. Þó hefði ég kannski gaman af þessum amerísk húmor sem lofað er á miðanum. Ég er hræddur um að þetta enskunámskeið verði að vera, í orðum Robert Frost, the road less traveled.

Posted by Stebbi at 06.08.02 14:02
Comments
Post a comment

Remember personal info?