ágúst 20, 2002

Menningarnótt í Borg Óttans

Jæja, helgin var öll hin skemmtilegasta og slapp ég heill á húfi frá einni grimmustu Menningarnótt seinni ára. Trúlega á ég slysaleysið að þakka þeirri staðreynd að ég steig ekki út úr húsi alla Menningarnótt, enda var í gangi innflutningspartý hjá nýjustu íbúum "sambýlisins" (eins og sumir hafa kallað það) á Norðurstíg 3a. Helgi og Patricia héldu veglegt partý og buðu upp á tvenns konar bollur, snakk og pinnamat auk þess að hljómsveitin Kaffi, sem samanstendur af Svabba á gítar og raddböndum, Helga á trommum og Snorra Hergli á bassa, spilaði eins og þeir ættu lífið að leysa. Þar sem Helgi og Patricia búa á efstu hæð Norðurstígsins var tilvalið að horfa á flugeldasýninguna úr stofunni þeirra en einnig safnaðist fólk saman á svölunum hans Jósa hæðinni fyrir neðan og var sannkölluð áramótastemmning í gangi. Partýið hélt áfram fram eftir kvöldinu, mikið svall, fyllerí og góð tónlist. Svona eiga partý að vera.

Anyways, talandi um Menningarnótt: Mér sýnist að spá mín sem ég lét í ljós fyrir nokkrum árum sé að rætast á ömurlegasta hátt. Menningarnótt er orðin að sukknótt á sterum. Vissulega eru skemmtilegir menningarviðburðir og uppákomur í borginni, og fjölskyldufólk kíkir en masse í miðbæinn til að sýna sig og sjá aðra. Tónleikar, ljóðalestur, stuttir leikþættir, listasýningar setja svip sinn á Bangkok Norðursins þetta ágústkvöld, kúltur-andi svífur yfir strætum og allir sameinast á hafnarbakkanum þegar 1,5 milljónum króna er skotið á loft í fallegri flugeldasýningu........En

Á bakvið tjöldin brýna gamalreyndir sukkarar djammhnífana vegna þess að það er löngu búið að ákveða að Menningarnótt sé eins og þjóðhátíð djammara. Og þá meina ég ekki þjóðhátíð með helíumblöðrum á 800 kall, pulsum og ís, Ladda að skemmta á sviðinu á Lækjargötu og tignarlegri fjallkonu að berjast við illa tengdan hljóðnema. Nei, þetta fucked-up-festival einkennist af öngþveiti, líkamsárásum og general rugli (svona eins og Þjóðhátíð í Eyjum). Og til að bæta gráu ofan á svart er Menningarnótt orðin að lengstu djammnótt ársins, fólk var að lumbra hvort á öðru langt fram að hádegi sunnudagsins. Rúmlega hundrað mál komu inn á borð lögreglunnar í Reykjavík og 60 manns þurftu að leita sér aðstoðar á slysadeildinni vegna líkamsárása. Og rúsínan í pylsuendanum, blindfullar bullur réðust á sjúkraliða og hindruðu þá í störfum sínum í miðbænum!! Kræst, það ætti að vana svona lið svo að það geti ekki af sér aðra kynslóð (og líklega heimskari) af heilalausum bjórbullum. Hvar er sænska ríkisstjórnin þegar maður þarf á henni að halda?

Ég er hræddur um að Reykjavíkurborg þurfi að hugsa sinn gang fyrir næsta ár, kannski væri bara ráð að flytja inn nokkra hollenska kaffibari í miðborgina og ná upp svona mellow andrúmslofti á Menningarnótt '03?

Sæl að sinni

Posted by Stebbi at 20.08.02 08:54
Comments
Post a comment

Remember personal info?