« janúar 2003 | Main | mars 2003 »

febrúar 28, 2003

Föstudagur til fjár.....

enda fékk ég útborgað í dag. Gaman að vera hálfgerður ríkisstarfsmaður. Í fréttum er þetta helst, einhverjar kosningar voru víst í Háskóla Reykjavíkur, hinn færeyski Viki-Vökulisti hélt fimm manna meirihluta sínum listi, Möskva, listi róttækra netagerðamanna náði þremur og listi Húmanista fékk einn mann inn. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég er ekki alveg viss á staðreyndunum, las þetta í allt saman í þeim ágæta netmiðli Færeyska Portalinum, rétt á milli fréttanna "Lærarafélagið sigur nei" og "Fólkaskúlin skal undir kommunurnar".

Færeyingar eru fyndnir, hverjum hefði grunað að "Norðmenn vilja hava fleiri vindmyllur" .

Posted by Stebbi at 03:03 EH | Comments (2)

febrúar 27, 2003

Enn hækkar bjórinn á Kaffi Reykjavík

Ókei, Viking er allt í lagi bjór svosem en kommon! Þetta er fáránlegt, 39000 kall fyrir stórt glas af bjór?!? 78000 kr fyrir lítra? Fyrir sömu upphæð getur maður keypt 4 1/2 gramm af kókaíni eða heimabíókerfi frá BT. Wise up, Kaffi Reykjavík!

Posted by Stebbi at 03:10 EH | Comments (15)

Ekkert blogg í 9 daga?

Það er rétt. Ég var að virða hina árlegu 9 daga bloggföstu, RAMaDAM. Nú er ég endurnærður og tilbúinn til að takast á við daglegt stress og frústreringar. Síðasta helgi var ljúf, Jósi bauð í bústað í Húsafelli og þangað héldu ég,Siggi Palli, Dóra, Bragi og Kristjana á föstudaginn. Föstudagskveldið var svo grillað svín og kjúklingur og setið að sumbli í heitum potti. Reyndar náðum við Bragi að skera okkur á fæti eftir pottaævintýrið og þar sem að sárin voru mjög svipuð dettur mér helst í hug að við höfum stigið á sama glerbrotið. En þetta reddaðist allt, Bragi lét hlúa að sári sínu meðan ég hló karlmannlega og blés á allt sótthreinsunarprjál og fínerí. Nú, 6 dögum seinna, finn ég ekki fyrir hægri fæti og doðinn er breiðist hratt út. Gæti þurft að ampútera. Skiptir ekki máli, þá verð ég bara einfætti bloggarinn.

Á laugardaginn var svo kíkt í bíltúr. Fyrst voru Hraunfossar skoðaðir og síðan var stefnan tekin á Surtshelli en vegna færðar og smæðar á farartækjum þurftum við frá að hverfa. Þá var tekin sú ákvörðun að heimsækja Hauk nokkurn Halldórsson, gamlan vin og forvera minn í starfi hér á Breiðbandsdeild. Haukur er í námi á Bifröst og býr þar ásamt Lilju kærastu sinni. Þau tóku vel á móti þunnum sexmenningunum, báru ofan í okkur vöfflur og kaffi og spjölluðu um daginn og veginn. Eftir Bifröstina var haldið heim á leið. Þó stoppuðum við Bragi og Kristjana við mjög spúkí eyðibýli og tókum nokkrar myndir. Húsið var í töluverðri niðurníslu en þó hætti Kristjana sér inn um stofugluggann og tók ég mjög fríkí mynd af henni inni stofunni. Undarleg sixties húsgögn og creepy gul málning gerðu ekkert nema að fylla mann óhug. Það er örugglega þrælreimt í þessum hjalli!

Um kvöldið galdraði Bragi fram einn besta mat sem ég hef smakkað um mína ævidaga, það er ótrúlegt hvað þessi drengur getur gert með 1.5 kíló af nautakjöti og nokkrar kjúklingabringur. Go Bragi!! Eftir máltíðina til að enda allar aðrar máltíðir lá leiðin aftur í pottinn. Svo var tekið til við Actionary og spiluðum við fram á rauða nótt með dyggri aðstoð áfengis. Ég ætla ekki ekki að fara út í smáatriði en þetta kvöld bættust við íslenskt tungumál þrjú nýrði: flugleysingi, hafreður og prjónadvergur. 'Nuff said.

Upp úr hádegi á sunnudegi fékk ég svo far heim með Braga og Kristjönu. Bússtaðir eru kúl.

Posted by Stebbi at 09:49 FH | Comments (34)

febrúar 18, 2003

Sterkustu skákmenn heims?

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum eru þessir gaurar hér fyrir neðan taldir vera sterkustu skákmenn heims. Blah og þvaður. Sjáið bara myndirnar af þeim!!!
Grischuk er varla fermdur, Shirov lítur út eins og Játvarður bretaprins, Bareev virðist vera með einhvern lifrarsjúkdóm og Kramnik, hann líkist helst forfallakennara í stærðfræði í Austurbæjarskóla ca. 1978. Sá eini sem lúkkar eitthvað hættulega er Ivanchuk, ég trúi honum alveg til að slást við hóp af grænlenskum togaradurtum á sóðalegri krá í Hamborg. Ivanchuk representerar!

Posted by Stebbi at 09:32 FH | Comments (0)

febrúar 16, 2003

Ammli!

Í gær var haldið upp á þrítugsafmælið hennar Dóru, Eiginkonu Sigga Palla og hlaust af hin mesta skemmtan. Afmælisbarnið vissi nefninlega ekki af veislunni og gekk hún því grunlaus inn um dyrnar, beint í flanið á "surprise" veislu að bandarískum sið. Ég lýg þessu ekki, það var meira segja kallað "SURPRISE!!". Eftir að Dóra hafði jafnað sig var hafist handa við bolludrykkju og bjórþamb, ásamt því að boðið var upp á alls konar brauðpælingar frá Jóa Fel. Litla risíbúðin á Ránargötu iðaði af lífi og voru rædd landsins gagn og málefni jafnframt því að sumir fylgdust með Júróvisjon forkeppninni. Því miður komast Botnleðjumenn ekki til Eystrasaltsins en þess í stað sendum við Birgittu Haukdal?!? Jæja, fólk er fífl og ég er fólk og því er ég fífl eins og Þórbergur Þórðarson sagði í einhverri smásögunni sinni.....Anyways, njótið myndanna úr ammælinu og ef þið voruð ekki þar, well, þá voruð þið einhvers annars staðar.

Kræst, hvað gerðist eiginlega í þessu afmæli?? Klikkið ef þið þorið......

Posted by Stebbi at 11:33 FH | Comments (0)

febrúar 14, 2003

Clown Jesus says: Happy Valentine's Day

Valentínusardagurinn er genginn í garð enn á ný og geta blómasalar tekið gleði sína aftur. Fyrst við erum byrjuð að apa þennan dag upp eftir könunum (og ég veit að V/dagurinn er ekki séramerískt fyrirbæri) þá finnst mér að við gætum líka hirt nokkra frídaga frá þeim, td. Dag Martin Luther King, Forsetadag, Kólumbusardag og Fjórða Júlí. Meiri frídagar handa Stebba!

Posted by Stebbi at 11:26 FH | Comments (1)

febrúar 12, 2003

Tekknóhausar á Tryggvagötu

Jibbí jei, það er lífsmark í kofanum. Á þeim tæplega tveimur vikum frá því að ég flutti inn hefur ekki verið mikið af nágrönnum á stjái, reyndar var mér farið að líða eins og Palla sem var einn á Tryggvagötunni. En sem ég var á leið út heyrði ég óma tónlist af annari hæðinni og svona líka gamaldags, volgt 90's júrótekknó. Mér sundlaði dáldið þegar ég bar kennsl á lagið, Love Theme úr Braveheart eftir James Horner í tekknóútgáfu.....úff! Viðbjóður

Posted by Stebbi at 01:45 EH | Comments (1)

Jæja, hin alvitra akademía kvikmyndanna

Jæja, hin alvitra akademía kvikmyndanna í Los Angeles birti í gær lista með tilnefningum til óskarsverðlaunanna. Fátt kom mér svosem á óvart þar á bæ, nema að Richard Gere var snuðaður um tilnefningu fyrir besta leikara í aðalhlutverki. Fyrir þá sem ekki vita var söngleikurinn Chicago tilnefndur til 13 verðlauna og í kjölfarið fylgdu epískt verk Martin Scorsese, Gangs Of New York með 10 tilnefningar og dramað The Hours í leikstjórn Stephen Daldry með 9. Annar hluti Hringadróttinssögu náði að krækja sér í tilnefningu fyrir bestu mynd en Peter Jackson var ekki tilnefndur sem besti leikstjóri. Í flokknum fyrir besta lagið má svo finna ansi skrautlegan hóp tónlistarmanna; félagarnir í U2 eru tilnefndir fyrir lag sitt í Gangs Of New York, "The Hands That Built America", Paul Simon fær einnig sína fyrstu tilnefningu fyrir lag sitt "Father And Daughgter" úr teiknimyndinni The Wild Thornberrys Movie og viti menn, sjálfur Eminem er tilnefndur fyrir smellinn "Lose Yourself" úr 8 Mile. Sem betur fer var Madonna ekki tilnefnd fyrir hið svokallaða "James Bond lag" Die Another Day. Praise Jesus!

Sjálf verðlaunin verða svo afhent sunnudaginn 23. mars næstkomandi. Nákvæmar upplýsingar um tilnefningarnar má finna hér

Posted by Stebbi at 10:44 FH | Comments (0)

febrúar 11, 2003

Hmmmm.....ég er ekki yfir það

Hmmmm.....ég er ekki yfir það hafinn að taka einstaka próf á netinu (reyni að halda mig innan skynsamlegra marka þó) og þetta var nú bara ansi weird...What Was Your PastLife?

Posted by Stebbi at 08:26 FH | Comments (0)

febrúar 03, 2003

Flutningar, óboðinn gestur og fyrsta nóttin.

Jæja, þá er maður loksins kominn í nýju íbúðina. Eins og fyrr var greint frá fékk ég lyklana að Tryggvagötu 4, fimmtu hæð, íbúð 510, snemma á laugardagsmorgni. Flutningar hófust þó ekki fyrr en klukkan rúmlega sex og þrátt fyrir borubrattar yfirlýsingar um að allt draslið yrði selflutt án einhvers flutningabíls, lét dugnaðurinn í lægri kanti fyrir letinni og ég hringdi á bíl. Ég, Jósi og Högni drösluðum búslóðinni í bílinn og svo var rúntað þessa ca. 100 metra niður á Tryggvagötuna. Þar bættust í hópinn Siggi Palli, Dóra, Jón Geir og Nanna. Allt í allt tóku flutningarnir rúman klukkutíma og þykir mér það bara hinn besti árangur þegar tekið er í reikning lyftuleysi og fimm hæða klifur.

Mental note to self: Þvottavél upp fimm hæðir = Ekki skemmtileg reynsla.

Eftir erfiðið var boðið upp á bjór og pizzu og skemmtikerfi heimilisins (Sjónvarp+DVDspilari) sett upp. Við sátum fram eftir kvöldi, sötruðum bjór og átum pizzur og horfðum á hina stórgóðu kvikmynd Godspell á DVD. Þessi eðalræma er byggð á samnefndum söngleik sem var samtímaverk Jesus Christ Superstar og fjallar um mikið af sömu atburðum. Munurinn er sá að Superstar er kaldhæðið stykki sem lítur síðustu daga Krists að mestu frá sjónarhóli Júdasar en Godspell er meira eins og samblanda af Matteusarguðspjalli og Stundinni okkar, leikið af hippum sem hafa fengið borgað í sýru. Samt, fín tónlist og einstaklega flott kvikmyndataka.

Þegar leið á kvöldið ákvað ég að taka inn nokkra kassa sem höfðu verið skildir eftir fram á stigagangi. Sem að ég var að teygja mig í einn kassann sá ég mann liggjandi á stigapallinum. Mér flaug fyrst í hug að þarna væri íbúi annar hvorrar íbúðarinnar sem ég deili fimmtu hæðinni með, læstur úti en svo reyndist ekki vera. Maðurinn svaf þungum svefni í fósturstellingunni með leðurjakka dreginn yfir höfuðið. Við stjökuðum aðeins við honum og kom þá í ljós blóðugt andlit og spurði kauði hvers vegna við værum að vekja hann. Við ákváðum að leyfa honum að lúlla og hringja á meðan á lögregluna. Ég bjallaði á Reykjavík’s finest og eftir dúk og disk birtust þrír laganna verðir og kom þá í ljós að gaurinn var svokallaður góðkunningi lögreglunnar og urðu með þeim fagnaðarfundir. Gesturinn var leiddur á brott og hefur vonandi fengið gistingu á þægilegri stað en hörðu gólfinnu á fimmtu hæð Tryggvagötu 4.

Eftir að síðasta flutningafólkið var haldið á brott tók ég upp úr nokkrum kössum í viðbót og setti lak á rúmið, breiddi ofan á Elínu Soffíu sem svaf í sófanum (hún á náttúrulega báða sófana, svo henni er frjálst að nýta sér aðstöðuna) og hélt í háttinn. Sem ég lagðist til svefns sá ég nokkuð sem fullkomnaði frábærlegheit þessarar íbúðar. Á svörtum himni sá ég stjörnur. Blikandi stjörnur á svörtu satíni. Eftir að hafa hýrst á Norðurstígnum í tæplega 2 ár var ég búinn að gleyma þessum fyrirbærum en nú hef ég endurheimt þau. Guð blessi manninn sem fann upp efstu hæðina.

Posted by Stebbi at 11:51 FH | Comments (0)

febrúar 01, 2003

Ég hef völdin!!

Lyklavöldin það er að segja : )

Það er rétt, hér sit ég með þunga lyklana af nýju íbúðinni og horfi á stafla af kössum sem þarf að flytja. Að vísu er klukkan bara hálf-tíu og þess vegna er heilinn ekki alveg kominn í gang. Held ég leggi mig fram að hádegi, en þá byrjar ballið. Sæl að sinni.

Posted by Stebbi at 08:24 FH | Comments (0)