« júní 2003 | Main | ágúst 2003 »

júlí 31, 2003

Íslenskt Hraun

Jú, Nelly's hefur breyst til batnaðar eftir að okkar maður Bragi kom að rekstrinum. Nú síðast í gær létu þeir félagar í gleðihljómsveitinni Hraun gamminn geysa. Staðurinn var troðfullur af erlendum ferðamönnum og lét Svavar þá sko hafa það óþvegið. En Ausländerarnir brostu bara að kallinum og klöppuðu óspart.

Hver henti Jósa út úr þyrlu? Kannski er svarið að finna í myndasafninu.

Posted by Stebbi at 11:43 FH | Comments (0) | TrackBack

júlí 28, 2003

Góður draumur í Elliðaárdalnum

Á laugardaginn varð ég þess heiðurs aðnjótandi að sjá uppfærslu leikfélagsins Sýna á Draumi Á Jónsmessunótt eftir sjálfan Vilhjálm Skakspír. Sýningin var með ansi skemmtilegu móti, flutt í Elliðaárdal undir beru lofti. Leikurinn hófst hjá gömlu rafstöðinni og svo röltu áhorfendur milli staða og á hverjum stað tók við nýtt atriði. Draumurinn er kómedía eins og aðeins Stratfordbúinn gat samið þær, full af ástarfári, fíflaskap og alls konar álfakvikindum. Allir leikarar stóðu sig með sóma, en þó má sérstaklega minnast á skemmtilega tilburði Fangors í hlutverki eins fjórða af pestarkvikindinu Bokka. Eins og venjulega ætla ég að leyfa myndunum að mæla fyrir mig en fyrir þá sem vilja fræðast meira um Drauminn má benda á umfjöllun um efni verksins á vef Þjóðleikhússins.

Posted by Stebbi at 12:38 EH | Comments (0) | TrackBack

júlí 25, 2003

Pimpin' Olympics

Tekið orðrétt úr Morgunblaðinu þann 25. júlí 2003:

"Danir hafa verið gagnrýndir fyrir að vilja ekki taka þátt í sameiginlegum mótmælum ráðherra Norðurlandaríkjanna og Eystrasaltsríkja við áætlunum grískra yfirvalda um að fjölga vændishúsum í Aþenu til að þjóna gestum Ólympíuleikanna 2004."

Hmmmmmm...

Skrifið ykkar eigin brandara í kommentakerfið.

Posted by Stebbi at 04:15 EH | Comments (1) | TrackBack

júlí 21, 2003

Garðskálar og sólpallar eru kúl

Á laugardaginn buðu Jónína & Nína í innflutningspartý á Laugarvegi 49 en þær fluttu þangað af Laugarvegi 49. Þeas. þær fluttu milli íbúða og er sú nýja ansi flott með garðskála og veglegum sólpalli. Rúsínan í pylsuendanum var svo bjórkúturinn sem Nínurnar höfðu splæst í.....seinna var haldið fylktu liði niður á Gauk þar sem Moonboots spiluðu. Myndir eins og venjulega á sínum stað :)

Posted by Stebbi at 03:38 EH | Comments (3) | TrackBack

júlí 16, 2003

Grótta III

Eftir að hafa legið í sófanum í gær dreif ég mig út í hjólatúr með Sigrúnu vinkonu minni og tókum við stefnuna á Gróttu. Þar hjóluðum við í gegnum mjög svo árásargjarnan kríuhóp og horfðum síðan á sólsetrið. Eins og venjulega þá læt ég myndirnar tala.....

Posted by Stebbi at 12:54 EH | Comments (2) | TrackBack

júlí 15, 2003

Mysubað

Er eitthvað fyndnara en að baða kött....I think not

Þarna vorum ég, Svabbi og Jósi að horfa á hina ágætu mynd Jackass: The Movie þegar kisan hans Svavars, Mysa, röltir upp að okkur mjálmandi. Veslings Mysa var víst með einhverja ræpu og var orðin heldur illa lyktandi þannig að Svavar ákvað að baða hana. Eins og sést á meðfylgjandi myndum voru ekki allir á sama máli um ágæti hreingerningarinnar......


Posted by Stebbi at 10:12 FH | Comments (0) | TrackBack

júlí 13, 2003

Le Weekend

Crouching Tiger, Hidden Hulk

Jæja, glittir í lok helgarinnar og er ég betri maður fyrir vikið? Tvímælalaust! Á föstudag kíkti ég niður í bæ með Jósa að lokinni vinnu þar sem við lögðumst í grasið á Austurvelli og drukkum bjór og sleiktum sólargeisla. Brátt slóst Siggi Palli í hópinn og svo bar Grímu að. Við spjölluðum um heima og geima, drukkum bjór og borðuðum snakk í blíðviðrinu. Það gerist ekki betra. Rétt fyrir 7 kom Helgi og hann, ég og Jósi kíktum á Hulk í Háskólabíói. Þar fer mjög áhugaverð ræma, einstaklega vel gerð (jú, Hulkurinn er frekar óraunverulegur, hann er jú eftir allt saman 7 metrar á hæð og grænn). Leikstjórinn Ang Lee gerir góða hluti í frásögninni og að mínu mati er myndin á köflum aðeins of góð fyrir þennan sumarmarkað sem er verið að henda henni inn á.

Gæsir, Steggir, Hafnfirðingar og annar fiðurfénaður

Á laugardagskvöldið kíkti ég svo í partý til hennar Ástu en þar var verið að halda upp á velheppnaða gæsun á Nönnu, en hún og ektamaðurinn hennar, Jón Geir, ætla einmitt að gifta sig 16. ágúst næstkomandi. Þegar ég kom í teitið var Actionaryspil í fullum gangi en því miður kom ég of seint til að geta rétt við leika og liðið mitt tapaði. Stuttu seinna fór Nanna að harma gítarleysið í partýinu og stakk upp á því að okkar partý sameinaðist leikfélagspartýi í Hafnarfirði. Í Hafnarfirði hittum við fyrir hresst lið sem var niðursokkið í alls konar kappleiki, á hlaupahjólum og skrifborðsstólum. Ég veit ekki nákvæmlega hver úrslit tímatökunnar voru en ég býst við að Ferrari-lið hafi unnið, þetta er allt svo fyrirsjáanlegt. Myndaþyrstum bendi ég á galleríið mitt, þar má allan sorann sjá. Ég drattaði mér þó heim úr Hafnarfirðinum á skikkanlegum tíma og skellti mér í fletið.

Skriðsyndaflóðið

Á sunnudeginum var ég ofboðslega duglegur og skellti í eina vél og henti síðan afrakstrinum í þurrk út á svalir, rétt tímanlega fyrir hellidembuna sem byrjaði 5 mínútum seinna. Ég er muy fúll út í íslenskt veðurfar, eða réttara sagt þessa erlendu rigningu sem farin er að venja komur sínar hingað. Íslensk rigning á að vera létt og hressileg og koma frá hlið, ekki beint niður, hart og grimmt og lengi. Fuss og svei á rigningu. Anyways, ég skellti mér í sund í Vesturbæjarlaugina og tók kílómetra í freestyle (skrið, bringu, bak, flug, björgunar og hundasund) og kom sem nýr maður uppúr lauginni. Sund er gott.

Posted by Stebbi at 09:03 EH | Comments (0) | TrackBack

júlí 08, 2003

Sniglaveislan II

Jæja, nú tók ég myndasafnið allt saman í gegn með hinu frábæra forriti Gallery og nú eru allar stafrænu myndirnar sem ég hef sett á netið á sama stað, Jibbíkóla.

PS: Fór á Landsmót Snigla ásamt Grímu góðu á Laugardaginn og hittum Helga, Svabba og restina af Moonboots. Þar var bara dúndurfjör, Sniglar eru svalir í húð og hár. Moonboots (- Óli) spiluðu fyrir dansi ásamt Brain Police og Exist og var ekki annað að sjá en að viðstaddir kynnu vel að meta spileríið. Eini skugginn á kvöldinu var þegar stuðboltinn Jói "Rækja" féll í kröppum dansi og slasaðist á hrygg. Hann mun þó ná fullum bata en verður þó að taka því all rólega næstu mánuðina.

Þá nóttina gisti ég í tjaldinu hans Svabba þar sem að Hagkaupstjaldið mitt ákvað að halda ekki vatni. Daginn eftir tók ég þá auðveldu ákvörðun að henda tjaldinu en þó ekki áður en ég hafði prófað að nota það sem flugdreka í ofsarokinu. Sú tilraun vakti svo mikla athygli að ónefndur blaðamaður frá Morgunblaðinu smellti af mér mynd sem birtist á bls. 2 í mánudagsblaðinu. Ich bin famous!

Posted by Stebbi at 11:51 EH | Comments (4) | TrackBack

júlí 03, 2003

imissdabus

Þegar ég var lítill voru strætóbílstjórar gamlir kallar (og einstaka kellingar) sem keyrðu hægt, spjölluðu við farþegana og gleymdu einstaka stoppistöðvum. Nú eru strætisvagnsstjórarnir ungir strákar að flýta sér, þeir keppast við að ná gulu ljósunum, blaðra stanslaust í gemsana sína (sem betur fer oftast í handfrjálsum) og gleyma einstaka stoppistöðvum. Það er ævintýri að ferðast í strætó!

Posted by Stebbi at 11:59 FH | Comments (0) | TrackBack

júlí 02, 2003

Standöpp, Sniglar og Tunglvöðlur

Jæja, þá er myndasafn helgarinnar loksins komið upp. Ég er skriflatur þessa dagana og finnst satt að segja þægilegast að láta myndirnar tala. Á fimmtudagskvöldið var Snorri Hergill með uppistand í Þjóðleikhúskjallaranum og heppnaðist það með afbrigðum vel. Nú tekur Hergillinn brátt stefnu á Englandsstrendur og vonandi leggst fyndnin jafnvel í þegna drottningar eins og okkur sem á hlýddum á fimmtudaginn.

Á laugardagseftirmiðdegi spiluðu svo Moonbootsmenn fyrir Bifhjólasamtök Lýðveldisins á Ingólfstorgi og seinna meir slóst hinn eini og sanni Ómar Ragnarsson með í fjörið og reytti af sér brandarana (hann tók líka eina þá mögnuðustu Júróvisjonsyrpu sem ég hef nokkurn tíma heyrt :)

Á laugardagskvöld voru svo Moonbyttningar með tónleika á Gauk á Stöng, nokkurs konar kveðjugigg fyrir Óla hljómborðsleikara. Það var ansi lítið í bænum en krádið á Gauknum var í banastuði (fyrir utan einn vitleysing sem Svabbi lét henda út). Jibbíkóla og gaman á Gauknum!

Posted by Stebbi at 11:36 FH | Comments (3) | TrackBack