« september 2003 | Main | nóvember 2003 »

október 26, 2003

Ísland úr Nato, herinn burt...hvað er klukkan?

Ég kíkti með Svabba á fund hjá Samtökum Herstöðvarandstæðinga í gær og hafði gaman af. Samkoman var í kaffistofunni á elliheimilinu á Vesturgötu 7 og vel mætt, mælendur komust vel að orði og mikið var rætt um Nató-ferðir blaðamanna sem eru víst ávísun á alveg ágætis fyllerí. Svo tók Pétur Pétursson fyrrverandi þulur til máls og stiklaði á stóru í frásögn sinni af Nató-aðild Íslendinga í gegnum árin ásamt því að krydda frásögnina með ansi hnyttnum sögum af ýmsum þjóðþekktum mönnum. Á miðjum fundinum varð mér þó litið á klukkuna og fattaði þá að ég var með Nató-armbandsúr sem að karl faðir minn hafði komið með til baka þegar hann vann sem læknir í Kosovo fyrir nokkrum árum síðan. Ég tel mig heppinn að hafa sloppið lifandi út :)

Um kvöldið hélt Unnur svo BA-partý til að halda upp á ritgerðina sína og þar var drukkið og sungið og glímt....í olíu... 'nuff said. Alltaf gaman að sjá nýja hluti *hehehe*

Sunnudagurinn er ansi týpískur, skýjaður og þungur. Ég sit hér á sloppnum og drekk eplasvala í þynkunni, suddalega myglaður og krumpaður. Húrra fyrir sunnudögum!

Posted by Stebbi at 12:35 EH | Comments (8) | TrackBack

október 20, 2003

Aðeins 47 vinnudagar til jóla

Jæja, enn ein helgin að baki. Þessi var fremur róleg, kíkti í glaðning hjá Gagnasviði Símans á föstudagskvöldið til að fagna góðum viðtökum á ADSL-tilboðum. Þar voru bornar fram veitingar, fastar og fljótandi, og voru snitturnar mjög svo fjölbreyttar, t.d. með dádýra-carpaggio..mmmmm. Snorri Hergill og Bjössi Hjalta mættu og í krafti sínum sem fyrrverandi starfsmenn Símans fóru þeir með uppistand sem að mæltist þrusu vel fyrir.

Seinna um kvöldið sótti Jósi mig og við kíktum ásamt fríðu föruneyti á Kill Bill í Smárabíói. Vá, eins og þetta bíósumar hefur tottað dauðan hest þá virðist allt vera að glæðast með lækkandi sól. QT kemur manni hressilega á óvart með þessari blóði drifnu Holly-Kong fantasíu og ég hefði glaðlega horft á afurðina í fullri lengd en því miður þarf maður að bíða þar til í febrúar til að sjá annan hluta.

Restin af helginni er bara móða, misgott X-Files gláp með Ástu á laugardagskvöldið en á sunnudaginn fékk ég lánaðan bíl og rúntaði aðeins suður fyrir álver og tók nokkrar myndir með lánsvélinni. Á sunnudagskvöldið gerði ég síðan heiðarlega tilraun til að fara að sofa fyrir miðnætti en þá þurfti Bjarkar-afkvæmið að vera með partý á annari hæðinni og ég náði ekki að festa svefn fyrr en seint og síðar meir.

Mánudagur.....fuzzy....ekki gott.

Posted by Stebbi at 11:02 FH | Comments (6) | TrackBack

október 17, 2003

Kominn tími á Stebba

Jæja, nú fer að koma að því. Ég hef tekið þá ákvörðun að fara að kynna mér líf eftir Landssímann. Ég hef verið að vinna hjá þessu eðla fyrirtæki í tæp fimm ár, í mismunandi stöðum og þó að starfsumhverfið hafi oftast verið notalegt og samstarfsmenn flestir frábærir er samt kominn tími til að breyta. Don't get me wrong, ég er ekki að fara að segja upp á morgun eða neitt en ég finn fyrir þörf til að gera eitthvað annað, læra nýja hluti og jafnvel finna eitthvað sem mér finnst skemmtilegt að gera, og læra að gera það betur.

Hann Svabbi hefur í gegnum árin verið duglegur að ýta við mér og má kannski segja að honum hafi loksins tekist að smeygjast undir virkisvarnirnar. Mér líður dálítið undarlega núna, veit ekki alveg í hvorn fótinn ég á að stíga en veit þó að vegurinn liggur fram á við. Fyrsta mál á dagskrá er að borga VISA-reikning dauðans (eftir Bandaríkjaförina) og nota veturinn í að skoða þá möguleika sem mér bjóðast. Eitt veit ég að mig hefur langað til að læra að skrifa handrit eða skáldsögur. Nú er bara að byrja....

Eins og Holly Johnson sagði: "The world is my oyster."

Posted by Stebbi at 10:12 FH | Comments (8) | TrackBack

október 16, 2003

Uppistand og sviðsdauði

Jænxúg!!

Ég fór ásamt fríðu föruneyti til að sjá Snorra Hergil taka þátt í grínkeppninni Uppistandaranum sem haldin var í Þjóðleikhúskjallaranum í gær. Þar atti hann kappi við þrjá aðra keppendur, þar á meðal Svein Waage, sigurvegara í fyrstu Fyndnasti Maður Íslands keppninni. Við vorum mætt á staðinn upp úr átta en okkur hafði verið sagt að giggið byrjaði klukkan hálf-níu. Réttur tími reyndist þó vera nær tíu. Doddi litli var kynnir kvöldsins og kom fram í Love Guru persónunni sinni sem að minnir dáldið á aldraðan frænda að í gervi Ali-G. En hann meinar örugglega vel. Doddi kyrjaði sérstakan óð til mömmu sinnar en tók svo við og kynnti keppendur. Snorri sté svo fyrstur á svið og gerði alveg stórfína hluti við sínar 15 mínútur. Áhorfendur tóku vel undir og fékk hann miklar og góðar undirtektir.

Svo kom keppandi nr. 2. Vá. Ég gæti svosem komist að því hvað hann heitir en ég vil ekki hætta á að hann festist mér í minni, slíkar voru hörmungarnar. Hann komst aldrei á flug, náði engu sambandi við salinn og þegar allt var komið í handaskol hjá honum, komu bara langar þagnir þar sem fátt eitt heyrðist nema mjak í stólsessum og einstaka hóst. Undir lokin var hann farinn að baula eitthvað um 24 tíma klám í gegnum gervihnött og að hann þyrfti að fara að koma sér svo hann næði byrjuninni á næstu mynd og þá gall í einum gesta, "viltu ekki bara drífa þig heim svo þú missir ekki af myndinni?"
Það sorglegasta var að þessi komment skilaði þeim hæstu hlátrasköllum sem þessi keppandi fékk þetta kvöldið. Hann röltu stuttu seinna af sviði og tekið var bjór/pissuhlé.

Eftir hlé steig svo Sveinn Waage á svið og naut þess að koma í kjölfarið á grínsvartholinu. Hann lék á alls oddi og náði strax góði taki á salnum. Síðasti keppandinn var svo Haukur (betur þekktur sem Haukur í Horni), ég var ekki alveg að fíla efnið hans en salurinn tók frekar vel undir og úrslit kvöldsins voru sú að Sveinn Waage hreppti fyrsta sætið og Haukur annað og fara þeir þá í úrslit. Sveinn var vel að verðlaununum kominn en persónulega fannst mér þó Snorri eiga skilið annað sæti. En maður deilir víst ekki við FM957 dómarann.

Posted by Stebbi at 11:34 FH | Comments (3) | TrackBack

október 15, 2003

Óður til fallinnar myndavélar...

Kæra Powershot S330:

Ég vildi bara þakka þér fyrir góðan vinskap, trausta notkun og þá miklu gleði sem ég hlaut af þér. Ég tók yfir 3000 myndir á þig og þín verður sárt saknað. Hvíl í friði og takk fyrir árið.

Þann 08. september bilaði góða myndavélin mín í Bandaríkjunum og vildi ekki opna fyrir linsuna. Ég var svo stálheppinn að geta notað myndavélina hennar Unnar vinkonu minnar í San Fransisco en þegar heim var komið fór ég með Powershot S330 vélina mína í skoðun hjá Beco. Þar kom í ljós að viðgerðarkostnaður gæti verið hátt í 20.000 kr og var það heldur of stór biti fyrir mig að kyngja. Ég hef verið svo heppinn að geta fengið Canon-vél föður míns lánaða en samt er ég myndavélarlaus og líkar það illa. Ég hef löngum verið ljósmyndaglaður og frá því að ég eignaðist S330 þá hefur löngun mín til að kynna mér þau fræði aðeins aukist og aukist. Með komandi tíð mun ég vonandi geta fjárfest í nýrri og betri vél en það mun samt engin vél geta komið í stað minnar kæru.

Hérna fylgja nokkrar af uppáhaldsmyndunum mínum, teknar á Canon Powershot S330


Og að lokum, síðasta myndin sem ég tók á vélina, við Big Sur í N-Kaliforníu þann 08. september:

Posted by Stebbi at 02:03 EH | Comments (10) | TrackBack

október 13, 2003

Maður í frysti

Þarna sit ég á mánudagskvöldi, frekar slappur og kveiki á RÚVinu til að hressa mig við. Blasir þá ekki við mér maður í frysti, eingöngu klæddur nærbuxum og skjálfandi eins og hrísla. Ég held í fyrstu að ég hafi rambað á frekar nastý þátt af Alias eða The Sopranos þar sem að þessi veslings maður muldrar í sífellu að hann eigi ekki að vera þarna en svo sýnir myndavélin góðlátlegan vísindamann sem að muldrar: "I think we should let him out now..."

Þetta var þá einhver heimildamynd frá BBC um veðurfar jarðar, nú var 3 þáttur af 4 og umfangsefnið var kuldi. Þetta mannkerti hafði víst farið inn í frystinn af fúsum og frjálsum vilja til að kanna kuldaþol mannfólks. Voðalega eru heimildamyndir orðnar brútal.....Að vísu sat ég sem límdur við skjáinn, elska svona BBC dæmi.

Posted by Stebbi at 10:24 EH | Comments (3) | TrackBack

Boo-ya!

Það er mér sönn ánægja að tilkynna það að ég hef sett upp LiveJournal dagbók en þær virðast vera all the rage þessa dagana. Ekki búast við vitrænu innihaldi en dagbókin gæti komið enskumælandi vinum mínum að gagni.

Hérna er viðundrið.

My faithful englishspeaking readers (who must be quite puzzled by my posts in icelandic) can finally breathe a sigh of relief. Mr. Logan has invaded LiveJournal and there he goes by the name of Sans Katana.


PS: Thanks Erin, for the code :)

Posted by Stebbi at 05:10 EH | Comments (53) | TrackBack

október 09, 2003

Where has all the MSG gone?

Hitti Ástu á American Style í hádegismat. Þar var allt of mikið af fólki svo að við kíktum á Nings en þar gæddum við okkur á réttum úr hádegisverðaborði staðarins. Það kom mér töluvert á óvart að Nings eru ekki lengur með uppáhaldskryddið mitt, MSG, á boðstólum og þykir mér þar mikill missir. Samt var hádegismaturinn ágætur og svo hjólaði ég til baka í vinnuna með A Shot In The Dark eftir Henry Mancini og Ride Of The Firemares eftir James Horner í MP3 spilaranum. Það var frískandi :)

Posted by Stebbi at 01:55 EH | Comments (7) | TrackBack

október 07, 2003

Their bones will warm my homes!

Frá því að ég flutti inn á Tryggvagötuna í febrúar hef ég fengið að heyra það frá fleiri en einum vini að svefnherbergið mitt sé nokkuð tómlegt, jafnvel kuldalegt. Vissulega er það frekar simpílt, bara rúm, kommóða og tvær myndir á veggnum en einhvern veginn hef ég bara aldrei komið mér í það að skipuleggja þetta flæmi (það er í stærri kantinum). Nú um helgina gaf karl faðir minn mér þó ágætis gjöf sem ég hef nú skellt upp á vegg til að gera herbergið minna
"beinabert".

Eitt sinn var ég ungur en komst svo á "legg" hahahahahaha.

Stoltur "lærimeistari" pósar með listaverkinu.

Posted by Stebbi at 04:07 EH | Comments (3) | TrackBack

Nokkrir hlutir sem ég komst

Nokkrir hlutir sem ég komst að eftir að hafa séð Underworld í bíó.

Vampýrur eiga heima í risastórum aðalssetrum og gera fátt allan daginn nema að hanga í sömu stofunni, uppáklæddar eins og heróinmódel fyrir Wallpaper-myndatöku.

Varúlfar eru suddalegir gaurar með barta og klæðast vinnujökkum og stígvélum með stáltám, vampýrur eru meira upp á GK lúkkið.

Þó að það sé alltaf rigning þá dettur hvorki vampýrum né varúlfum að fá sér regnhlíf.

Bill Nighy er svalasti maður í heimi.

Endalausir skotbardagar milli vampýra og varúlfa eru ekki alveg jafn skemmtilegir á filmu og þeir hafa litið út á blaði.

Vampýrur í kvikmyndum hafa sjaldnast séð vampýrukvikmyndir.

Posted by Stebbi at 01:21 FH | Comments (6) | TrackBack

október 06, 2003

Mótel Venus að hausti til.

Jæja, á laugardagskvöldið brá ég mér í ferð með Hraunliðum þar sem þeir spiluðu fyrir fullu húsi Snigla á Mótel Venus, rétt fyrir utan Borgarnes. Sniglar voru þar saman komnir til að halda árshátíð og ekki bar á öðru að kokteill Hraunara sem samanstóð af gömlum metal, teiknimyndalögum, jólaslögurum og fleiri góðgæti hafi bara runnið vel ofan í viðstadda.

Posted by Stebbi at 12:13 EH | Comments (1) | TrackBack