« janúar 2004 | Main | mars 2004 »

febrúar 26, 2004

Aftur til fortíðar


Í ágúst 2000 héldum ég, Jósi, Helgi og Siggi Palli í tveggja vikna ævintýraferð um Þýskaland með viðkomu í Danmörku, Hollandi, Lúxemborg og Frakklandi. Markmiðið með ferðinni var tvíþætt: Annars vegar að fara á Bizarre tónlistarhátíðina en þar spiluðu listamenn á borð við Beck, Foo Fighters, Limp Bizkit, Moby, K's Choice og Bjorn Again. Hins vegar ætluðum við að hitta Horst Tappert, Derrick sjálfan. Helgi hafði áður spurst fyrir hjá ZDF sjónvarpsstöðinni um póstfang aðdáendaklúbbs kappans en fékk óvænt svar til baka. Einhver góðhjartaður starfsmaður ZDF sendi Helga bara heimilisfang Tapperts.

Ferðin var hin skrautlegasta, við byrjuðum í Köben með Svabba og Pálínu sem að fóru þangað í frí og áttum þar skemmtilega helgi, öll nema Helgi. Hann fékk streptókokkasýkingu og leit út fyrir á tímabili að hann kæmi ekki með til Þýskalands. Hann braggaðist þó og á mánudegi skriðum við svo yfir landamærin til Þýskalands, nánar til tekið til Flensborgar þar sem að við fengum afhentan Volkswagen Vito sendibíl þar sem að veslings bílaleigan átti ekki upphaflegu pöntun okkar. Við vorum nokkuð sáttir þar sem að Vito-inn var stærri og við borguðum sama prís. Við hófum ródtrippið okkar og ókum fram og til baka, upp og niður, sáum marga skemmtilega hluti og enduðum svo í München. En ein mynd segir meira en þúsund orð þannig að myndalbúmið fyrir Þýskalandsferðina er á við rúmlega 63000 orð.

"It's not the destination, it's the journey."

Posted by Stebbi at 02:49 EH | Comments (4) | TrackBack

febrúar 25, 2004

Those poor fascists

Brilliant klippa sem að lýsir á aðdáunarverðan hátt daglegri lífsbaráttu hins venjulega nýnasista í hörðum heimi sem að er ekki gerður fyrir hann.

Posted by Stebbi at 02:24 EH | Comments (1) | TrackBack

febrúar 23, 2004

Gleðilegan bolludag....

...þið sem haldið hann heilagan. Helgin var ofboðslega viðburðalítil, matur hjá Sigga Palla og Dóru á föstudaginn, kjúklingabringur með pastasósu (mmmmmm). Kolaportsráp og matur hjá Elínu Soffíu á laugardaginn, beikon og risarækjur á spjóti ásamt köldu pestó-pasta (mmmmmmmmmmmmm). Á sunnudaginn skruppum ég og Jósi ásamt Braga út í Gróttu að spóka okkur og Bragi tók þessa líka fínu mynd af okkur Jósa, svona eins konar Sjálfstætt Fólk eða Maður er Nefndur pæling í gangi, bara spurningin hvor er Jón Ársæll?

Eftir Gróttugöngutúrinn var haldið heim til Braga og Kristjönu þar sem hafist var handa við að baka vatnsdeigsbollur. Eftir mikið puð gæddum við okkur svo á bollum með bláberjasultu og vanillubúðingi og snæddum svo spaghetti bolognese (hakk og spaghetti) í kvöldmat. Ef ég held uppteknum hætti mun mér takast að minnka matarreikninginn minn til muna á næstu mánuðum. Jei fyrir mér! :p

Seinna um kvöldið kíktum við Jósi í heimsókn til Svavars og Pálínu og drukkum með þeim rauðvín og fylgdumst með spurningaþættinum Landsins Snjallasta. Ennþá ansi ruglingslegur þáttur. Skemmtilegir risateningar samt.

Posted by Stebbi at 01:07 EH | Comments (90) | TrackBack

febrúar 18, 2004

Myndir í bala

Nú á dögunum ákvað ég að skanna inn allt ljósmyndasafnið mitt sökum þess að ég fann fúnkerandi skanna á hæðinni fyrir neðan mig í vinnunni. Nú hef ég verið að skjótast í maskínuna eftir vinnu, skannandi 30-40 myndir í senn og á ekki nema svona 1000 stk eftir :p

Reyndar er ein ójafna á veginum. Fyrir rúmu ári síðan flæddi inn um útidyrnar á Norðurstíg 3a og vatnið náði inn í geymsluna. Þar skemmdist lítið sem ekkert nema að nokkrir pappakassar blotnuðu að neðan. Sökum eigin leti tékkaði ég ekki á skemmdunum fyrr en nokkru seinna og komst þá að því að hluti myndasafnsins hafði blotnað (og þornað aftur). Nú átti ég þess vegna nokkrar þykka klumpa af ljósmyndum sem að ekkert gekk að kroppa í sundur. Ég bölvaði og gekk frá draslinu og gleymdi þessum samanklístruðu myndum.

Nú 14 mánuðum seinna tek ég þessa fyrrnefndu klumpa af samlímdum ljósmyndum og hendi einum í skál með heitu vatni í tilraunaskyni. Viti menn, eftir hálftíma tókst mér að pilla fyrstu myndina frá og eftir mikið plokk og pill var bunkinn allur kominn í sundur. Nú þarf ég bara að finna bestu leiðina til að þurrka myndirnar ;)

Posted by Stebbi at 02:48 EH | Comments (0) | TrackBack

febrúar 16, 2004

Skilaboð til æsku landsins

Jósi benti mér á þessi skilaboð á klósetthurð á Prikinu:

Svo sem margt til í þessu og eitt er víst, Kjörís-netaderhúfurnar voru ekki svalar 1986 og eru ekkert svalari núna. Word up!

Akkuru geta ekki allir bara fílað ELO og tekið því rólega?

Posted by Stebbi at 01:41 EH | Comments (0) | TrackBack

Allt of seint en.....

TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN DÓRA!

Hún Dóra æðislega, vinkona mín og eiginkona Sigga Palla átti ammli á miðvikudaginn síðasta. Til hamingju elsku dúllan mín, bráðum geturðu farið að kaupa áfengi löglega ;)

Posted by Stebbi at 11:11 FH | Comments (0) | TrackBack

febrúar 09, 2004

Hjálp!

Tölvan mín hefur verið í viðgerð síðan á þriðjudaginn og nú var ég að fá þær fréttir að það þurfi að senda hana til EJS og skipta um móðurborð.

"&"$#%!

Anda inn. Anda út.

Svona, þetta var betra.

Goosfrabah.

PS: Það var kalt í Öskjuhlíð um helgina.

Posted by Stebbi at 11:49 FH | Comments (3) | TrackBack

febrúar 02, 2004

Ekki lengur Nígería?

Upphaflega birt á enska blogginu mínu.

Verandi tæknimaður mikill og sjóaður í tækni samskiptanna er ég bæði með GSM síma sem og svo kallaðan heimasíma. Heimasíminn er þó sjaldnast notaður, eiginlega bara mamma mín og Snorri bróðir minn sem að hringja í hann, já og Gallup, ekki má gleyma Gallup. Þegar síminn hringdi svo í dag bjóst ég við að heyra röddina í Snorra en viti menn, einhver vildi senda mér fax...

Símtal:

Ég: (sifjulegur og hálsbólginn): Já, halló?

Ókunnugur Maður(þykkur afrískur hreimur): I want to send you a fax, you give me your fax number?

Ég: Huh? Who is this? Why do you want to send me a fax?

Ókunnugur Maður: Can I have your fax number please

Ég: Ok, who are you and why do you want to send me a fax?!

Ókunnugur Maður: I am calling from South Africa, do you have a fax number? It is for a business opportunity.

Ég (geri mér grein fyrir stöðu mála): What kind of business opportunity?

Ókunnugur Maður (óþolinmóður): We don't like to talk about it on the phone, please give Ég your fax number.

Ég(pirraður): Ahh, I get it, and you only need a small contribution from me eh? A slight fee to grease the wheels and free your untold millions from their frozen bank accounts? Or is it gold dust? Or a diamond mine?

Ókunnugur Maður: Look, it will all be clear to you when I fax you, what is your fax number?

Ég: I don't have a fax number and don't ever fucking call me again. Have a nice day and fuck you!

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Ég kunni betur við þessa gaura þegar þeir sendu mér einstaka betlibréf með harmsögum í tölvupósti. Þetta er nú aðeins of langt gengið.

Posted by Stebbi at 12:47 FH | Comments (12) | TrackBack

febrúar 01, 2004

Eins árs búseta

Í dag er liðið nákvæmlega eitt ár frá því að ég fékk afhenta lyklana að íbúð 510 á Tryggvagötu 4, 101 Reykjavík og hóf búsetu á fimmtu hæðinni. Það er ekki ofsögum satt að tíminn líður hratt, á gervihnattaöld sem og öðrum öldum, mér finnst við hafa flutt draslið inn í gær.

Hérna fyrir neðan er svo eftirprentun af fyrstu bloggfærslunni eftir flutningana miklu af Norðurstíg 3a yfir á Tryggvagötuna.

Flutningar, óboðinn gestur og fyrsta nóttin.

Jæja, þá er maður loksins kominn í nýju íbúðina. Eins og fyrr var greint frá fékk ég lyklana að Tryggvagötu 4, fimmtu hæð, íbúð 510, snemma á
laugardagsmorgni. Flutningar hófust þó ekki fyrr en klukkan rúmlega sex og þrátt fyrir borubrattar yfirlýsingar um að allt draslið yrði selflutt án einhvers flutningabíls, lét dugnaðurinn í lægri kanti fyrir letinni og ég hringdi á bíl. Ég, Jósi og Högni drösluðum búslóðinni í bílinn og svo var rúntað þessa ca. 100 metra niður á Tryggvagötuna. Þar bættust í hópinn Siggi Palli, Dóra, Jón Geir og Nanna. Allt í allt tóku flutningarnir rúman klukkutíma og þykir mér það bara hinn besti árangur þegar tekið er í reikning lyftuleysi og fimm hæða klifur.

Mental note to self: Þvottavél upp fimm hæðir = Ekki skemmtileg reynsla.

Eftir erfiðið var boðið upp á bjór og pizzu og skemmtikerfi heimilisins (Sjónvarp+DVDspilari) sett upp. Við sátum fram eftir kvöldi, sötruðum bjór og átum pizzur og horfðum á hina stórgóðu kvikmynd Godspell á DVD. Þessi eðalræma er byggð á samnefndum söngleik sem var samtímaverk Jesus Christ Superstar og fjallar um mikið af sömu atburðum. Munurinn er sá að Superstar er kaldhæðið stykki sem lítur síðustu daga Krists að mestu frá sjónarhóli Júdasar en Godspell er meira eins og samblanda af Matteusarguðspjalli og Stundinni okkar, leikið af hippum sem hafa fengið borgað í sýru. Samt, fín tónlist og einstaklega flott kvikmyndataka.

Þegar leið á kvöldið ákvað ég að taka inn nokkra kassa sem höfðu verið skildir eftir fram á stigagangi. Sem að ég var að teygja mig í einn kassann sá ég mann liggjandi á stigapallinum. Mér flaug fyrst í hug að þarna væri íbúi annar hvorrar íbúðarinnar sem ég deili fimmtu hæðinni með, læstur úti en svo reyndist ekki vera. Maðurinn svaf þungum svefni í fósturstellingunni með leðurjakka dreginn yfir höfuðið. Við stjökuðum aðeins við honum og kom þá í ljós blóðugt andlit og spurði kauði hvers vegna við værum að vekja hann. Við ákváðum að leyfa honum að lúlla og hringja á meðan á lögregluna. Ég bjallaði á Reykjavík’s finest og eftir dúk og disk birtust þrír laganna verðir og kom þá í ljós að gaurinn var svokallaður góðkunningi lögreglunnar og urðu með þeim fagnaðarfundir. Gesturinn var leiddur á brott og hefur vonandi fengið gistingu á þægilegri stað en hörðu gólfinnu á fimmtu hæð Tryggvagötu 4.

Eftir að síðasta flutningafólkið var haldið á brott tók ég upp úr nokkrum kössum í viðbót og setti lak á rúmið, breiddi ofan á Elínu Soffíu sem svaf í sófanum (hún á náttúrulega báða sófana, svo henni er frjálst að nýta sér aðstöðuna) og hélt í háttinn. Sem ég lagðist til svefns sá ég nokkuð sem fullkomnaði frábærlegheit þessarar íbúðar. Á svörtum himni sá ég stjörnur. Blikandi stjörnur á svörtu satíni. Eftir að hafa hýrst á Norðurstígnum í tæplega 2 ár var ég búinn að gleyma þessum fyrirbærum en nú hef ég endurheimt þau. Guð blessi manninn sem fann upp efstu hæðina.

Posted by Stebbi at 02:57 EH | Comments (3) | TrackBack