« mars 2004 | Main | maí 2004 »

apríl 30, 2004

Til Hamingju Bjarni!

Bjarni Rúnar Einarsson, öðlingur, paranörd og netverji er 28 (ekki 29 eins og fyrstu fréttir greindu frá) ára gamall í dag, hann lengi lifi!!

Posted by Stebbi at 01:17 EH | Comments (2) | TrackBack

apríl 27, 2004

wtf?

Andlit Íslandsbanka útávið þessa dagana virðist vera frekar hress spíttfíkill, þjónustufulltrúi sem að faðmar mann og annan og gleymir nöfnum viðskiptavina inn á milli. Ég er í viðskiptum við Íslandsbanka en hef ekki ennþá orðið þess heiðurs aðnjótandi að hitta þessa konu en ég er viss um að hún kæmi öllum mínum fjármálum í toppstand!

Svo gæti hún tekið til heima hjá mér.

Og vaskað upp.

Og skrúfað sjónvarpið í sundur og sett það saman aftur og gert við ryksuguna drefraggað tölvuna og hreinsað síuna á þvottavélinni og skrúbbað ofninn og lakkað svalirnar og tekið sjónvarpið aftur í sundur og sett það aftur saman og tekið til í plötusafninu og tengt hægri hátalarann á plötuspilaranum og straujað skyrturnar mínar og þvegið upp....

Vegna þess að hún er svo hresssssssssssss!!!!

Posted by Stebbi at 04:10 EH | Comments (2) | TrackBack

apríl 25, 2004

Mikilvæg tilkynning:

Stuðboltarnir í Hraun hafa gefið út sinn fyrsta singúl á www.hraun.tk og ég mæli með því að þið tékkið á þessu fantagóða lagi.

Posted by Stebbi at 11:44 EH | Comments (0) | TrackBack

Sannkallað "Evrópuveður"

Ég smellti af nokkrum myndum á sumardaginn fyrsta. Enski textinn er fyrir liðið í Íslandsvinafélaginu á Live Journal.

Bongóblíða, gessovel :)


Posted by Stebbi at 05:43 EH | Comments (2) | TrackBack

apríl 23, 2004

Í Köben er gott að vera....

Jæja, kominn heim með nýja myndavél og smá Danmerkurbrúnku (sem dofnar furðu fljótt)

Mér fannst svona við hæfi að fyrst að síðasta myndin sem ég tók á gömlu Powershot vélina mína skuli hafa verið af sólsetri þá lægi það í augum uppi að vígslumynd nýju DX 6490 skyldi vera af sólarupprás. Því dröslaði ég mér á fætur fyrir allar aldir, síðasta laugardag og festi sólarupprásina í Holbæk á stafrænt form.

Sólsetur yfir Kyrrahafinu, 08. september 2003.

Sólarupprás í Holbæk, 17. apríl 2004.


But I'm getting ahead of myself here.

Ferðin byrjar einhvern veginn svona:

Um borð í Icelandairvél á leið til Kaupmannahafnar, ca. 13:25 að íslenskum tíma, 16. apríl 2004.

Stefán er sestur í sætið sitt og er niðursokkinn í smásagnasafn sem honum var lánað af góðum vini. Flugfreyja ein nálgast Stefán með ungan dreng í eftirdragi og bendir á sessunaut Stefáns, annan dreng sem er rétt aðeins eldri en sá fyrri.

Flugfreyja: Afsakið, værir þú til í að færa þig aftur um eitt sæti svo þessir tveir bræður gætu setið saman?

Stefán: Færa mig til hjónanna með óstýrláta ungabarnið? Ekki málið, glaður skal ég gera það!

30 mínútum seinna er vélin komin á loft og Stefán er aftur búinn að sökkva sér í framandi heima vísindaskáldsagna þegar flugfreyjan nálgast hann aftur.

Flugfreyja: Afsakaðu aftur, mætti ég nokkuð biðja þig að færa þig aftur um nokkur sæti svo að hjónin geti fengið meira pláss hér?

Stefán: Færa mig aftur í vélina til hópferðarinnar á Eric Clapton tónleika sem uppistendur af einhverjum dreifarahnökkum sem eru hálfnaðir með líter af Sambuca rétt hálftíma eftir flugtak? Ekki málið, I live to serve!


I am stupid people.


En burtséð frá shitty flugi út var ferðin hin prýðilegasta. Helgi tók á móti mér í Holbæk og kíktum við á skoskan veitingastað, McDonald's, nálægt heimili hans áður en við kíktum í bjór og unaðsþýða tóna Mama's Groove Joint en sú eðla hljómsveit var einmitt að spila á búllunni sem við heimsóttum.

Daginn eftir þurfti Helgi að vinna til tvö en bauð mér svo í brönsj (hann fékk víst eitthvað gjafabréf sem nýbúi í Holbæk upp á máltíð fyrir sjálfan sig og fjölskyldu). Svo var haldið í bíltúr um nærsveitir Holbæk en það er rétt sem Helgi segir, það virðist dáldið vanta þrívíddina í danska landslagið, slík er flatneskjan.

Upp úr 18:00 var svo gripin lest til Köben þar sem við hittum fyrir Tóta, Hildi og Pétur, bróður hennar Hildar. Eftir að hafa snætt samlokur í kvöldmat litum við inn á La Fontaine og biðum þess að heyra lifandi djass. Eitthvað vorum við orðin þreytt á biðinni og bjórinn knúði okkur til að kyrja nokkra vel valda slagara á meðan bandið var fjarverandi. Þeir létu þó sjá sig upp úr ellefu og voru svosem allt í lagi en þegar söngvarinn skellti sér í "You Are So Beautiful To Me" var farin að færast þreyta yfir mannskapinn svo við miðuðum á Hovedbanegården, sóttum töskurnar mínar og náðum næstu lest til Lyngby (með viðkomu á McD aftur, mæli ekki með Big Tasty hamborgaranum, hann er stór en ekkert voðalega tasty). Á leiðinni frá Hovedbanegården náði Helgi að snúa sig á fæti (öl er böl) og var orðinn ansi haltur þegar lestin stoppaði loks í Lyngby og gengið var á P.O. Pedersen Kollegiet.

Um hádegið á sunnudeginum kvöddum við Helga Halta sem var þá orðinn stokkbólginn á ökklanum og hjóluðum sem leið lá til Helsingjaeyrar. Nú kom danskt flatlendi sér vel og við vorum enga stund að þessu, stoppuðum einu sinni í hádegismat og héldum síðan áfram ótrauð. Í Helsingjaeyri fengum við okkur bjór og hvítvín og kíktum síðan í Kronenborgarkastala þar sem gamall safnvörður skammaði krakkana fyrir að skemma danskar fornminjar. Eftir að hafa skoðað okkur um á slóðum Hamlets tókum við lestina til Lyngby, skiluðum hjólunum og kíktum svo til Köben þar sem við borðuðum kvöldmat á víetnömskum veitingastað áður en við leituðum upp meiri djass á Hvíta Lambinu og kynntumst skemmtilegasta manni í heimi.


Á mánudaginn héldum ég, Pétur og Tóti aftur til Köben til að sækja bakpokann sem Tóti hafði gleymt kvöldið áður á veitingastaðnum og einnig þurftum við að ná í VISA kortið hans Péturs en það hafði hraðbanki gleypt. Fyrst var samt stoppað í Christianshavn og heilsað upp á Stínu. Sorgleg sjón þar, allir básarnir horfnir úr Pusher Street og nú fer öll sala fram með augnagotum og leynilegum handbendingum á bak við luktar dyr. Frekar sorrí að sjá líka hóp af óeirðarlöggum á röltinu um Kristjaníu. Við yfirgáfum fyrrverandi fríríkið og á meðan Tóti náði í bakpokan áttum ég og Pétur stutt samtal við bankastarfsmann sem tjáði okkur að Svarta Kortið hans Péturs hefði verið klippt í sundur og sent heim til Íslands. Ansi brútal á því, Daninn.

Eftir að hafa snætt pizzu undir væmnum trjám í einhverjum kóngsgarðinum kíktum við í smá pool og pöbbarölt.

Þriðjudagurinn fór mestmegnis í bæjarrölt, ég testaði nýju myndavélina og hitti síðan Tóta sem var að koma úr atvinnuviðtali. Hann tók með mér lestina út á Kastrup þar sem við fengum okkur fullorðinsbjór á meðan ég beið eftir fluginu. Þegar brottfararkallið kom, kvaddi ég Tóta og hélt í átt að hliðinu mínu. Flugið heim var blessunarlega rólegt og ekkert í líkingu við hópferðarhelvítið á leiðinni út.

Gott að vera kominn heim en mikið sakna ég nú vina minna í Danaríki.

Posted by Stebbi at 02:49 EH | Comments (5) | TrackBack

apríl 16, 2004

Sayonara

Ég er farinn til Danmerkur (fyrst Holbæk og svo Köben) að hitta þá Helga og Tóta. Adios að sinni.

PS: Hér er svo mynd af nýju myndavélinni sem ég stefni á að kaupa í fríhöfninni, Kodak Easyshare DX6490

Jibbíkóla!

Posted by Stebbi at 10:11 FH | Comments (6) | TrackBack

apríl 15, 2004

Engin myndavél í draumaríki

Mig dreymdi í nótt. Ekki í frásögur færandi svosem, mig dreymir oft einhverja bölvaða steypu en nú var draumurinn minning. Og súra minningin það!

Hér fyrir nokkrum árum ('98-'9, ekki alveg viss) var Siggi Palli í Iðnskólanum á hönnunarbraut og sýndi ásamt öðrum nemum brautarinnar verk í Ráðhúsi Rykjavíkurborgar. Ég kíkti á sýninguna, minnir að Steina vinkona hafi verið með í för, en þá voru einnig krakkar í Bahá’í samfélaginu að sýna dansatriði hinum megin í sal Ráðhússins.

Þetta voru svona 5-6 týpískir unglingar, klæddir í svartar hettupeysur og svartar buxur, og svo byrjaði lagið. Og þá urðu hlutirnir fyrst súrir.

Total Eclipse of the Heart með Bonnie Tyler. Krakkarnir byrjuðu að baða út öllum skönkum, hlaupandi og hoppandi um gólfið (man ekki hvort að gerfireykur fylgdi) og þegar þeir snéru sér við sást að á bökum hettupeysanna voru skrifuð heiti á hinum og þessum fíkniefnum: "KÓKAÍN!" "HASS!" "SÝRA!" "SPÍTT" "HERÓÍN" etc. Dansinn táknaði semsagt baráttu ungrar stúlku við fíkniefnadjöfulinn (og allt undir alveg dúndrandi Jim Steinman grúvi) og þarna stóð maður alveg gapandi. Mig minnir nú að allt hafi farið vel að lokum og alla tíð síðan sé ég eftir því að hafa verið myndavélarlaus þennan daginn.

Posted by Stebbi at 02:06 EH | Comments (3) | TrackBack

apríl 14, 2004

Beðið eftir ormunum


Ég veit ekki hvað fríkar mig meira út, DNA-prófun án dómsúrskurðar eða leit á heimili eða persónu án dómsúrskurðar. Bíddu nú við, kannski er það frasinn "ÁN DÓMSÚRSKURÐAR"?

Ef við höldum áfram á þessari braut verðum við brátt farin að DNA-prófa fólk grunað um að vera örvhent, Vinstri Grænt, rauðhært eða frá Selfossi.

Posted by Stebbi at 10:44 FH | Comments (2) | TrackBack

apríl 12, 2004

Það var ekki seinna vænna...

Orðinn 28 ára gamall og aldrei lent í "hremmingum"?

Þetta byrjar allt með bústaðarferð. Ég, Svavar og Gústi tókum okkkur til á laugardaginn og kíktum upp í bústað til Jósa en þar var hann ásamt Geira-3D og Helgu kærustu hans. Um kvöldið var grillað og haft það notalegt, pottur, bjór og rauðvín og næs. Daginn eftir kíktum ég, Jósi, Svabbi og Gústi í bíl/göngutúr, ætluðum að reyna að skoða Surtshelli en það reyndist ófært.

Þegar við komum til baka voru Geiri og Helga þegar farinn svo að Gústi og Svabbi kvöddu líka, og ég og Jósi tókum til við að þrífa bústaðinn. Um hálfsjöleytið var allt komið í stand svo að við settumst upp í jeppann og lögðum af stað. Á leiðinni stakk Jósi upp á því að fara Kaldadalsleiðina og ég jánkaði því, vitandi að Jósi hefur gaman að jeppast (ég er svona meiri lestarkall en jeppakall). Við beygðum inn á afleggjarann og héldum sem leið lá upp á hálendið. Leiðin var dáldið röff en samt ekkert sem að jeppinn réð ekki við, en svo dró til tíðinda......meira má svo lesa í kvæðinu Stebbi & Jósi: Háski Á Hálendinu (Með 9 litmyndum!!)

Ferðin heim úr bústaðnum
var full til bein og alltof greið
svo Jósi brosti út í eitt
og sagði: "Hér er betri leið"

Kaldidalur Jósa kallar
jeppagaurar standast ei
engin sála hér á ferli
ekki einu sinni rollugrey

>

En þar sem Jósi kampakátur
jeppann stóra sat og ók
allt í einu, upp úr þurru
tryllitækið niður tók

Fram og aftur, upp og niður
reyndi Jósi sér að þoka
en allt kom fyrir ekkert og
út þeir fóru tveir að moka

Engin skófla, bara hamar
skrúfjárn og smá svo fleira dót
er það nokkur furða að
gröfturinn gekk ekki hót

En fljótt á brast nú myrkur mikið
veður vont og ískallt regn
sátu vinir inn í jeppa
dauðþreyttir og blautir í gegn

Í myrkri mælir varla sála
þreyttir vinir sitja inni
úldnir, kaldir hlusta á
Illuga á Langbylgjunni (Ríkisútvarpið= LW 189)

En morgundagur lukku færði
jeppinn laus og allt í sól
héldu hólpnir vinir heim
hvor í eigið hlýja ból

Móral ævintýri þetta
ber sem ber að hlusta á
hafið ætíð skóflu reiða
ef grípur ykkur fjallaþrá

(og takið mark á skiltum sem gefa í skyn að vegur sé lokaður)

Posted by Stebbi at 07:24 EH | Comments (7) | TrackBack

apríl 07, 2004

Well hello Dolly...

Hvað ætli sé mest creepy hlutur sem maður getur keypt í Rúmfatalagernum?

Þessari spurningu var svarað í dag þegar ég festi kaup á ultra-evil postulínsdúkku fyrir heilar 399 kr. til að gefa Auði systur minni. Við tvö erum sammála um að fátt sé jafn illa innrætt og einmitt svona dúkkur, upp til hópa morðóð kvikindi sem að láta sér fátt fyrir brjósti brenna. Ég kom við hjá Auði fyrr í dag og færði henni dúkkuna og fékk hún heiðursess í íbúðinni. Ó já, áður en ég gaf Auði Dúkku Djöfulsins þá sverti ég á henni (dúkkunni) augun. Making it extra creepy.

Solla Svarteygða mun myrða þig í svefni ef að tækifæri gefst. Ekki sofna, ekki sofna, ekki sofna, ekki sof.....

You won't need eyes where she'll take you.....

Posted by Stebbi at 09:50 EH | Comments (10) | TrackBack

"Aðeins" þúsund miðar eftir á Sugababes?

Og aðeins einn dagur í tónleikana?

Skífan dembir yfir mann gylliboðum, "kauptu miða og fáðu disk að eigin vali" etc.

Ég ætla að sjá hvort þeir bjóði eitthvað betur eftir hádegi. Eitthvað eins og td: "Kauptu miða á Sugababes og þær mæta heim til þín í eigin persónu og taka til fyrir þig." Íbúðin er nú reyndar enn dáldið sjabbí eftir afmælið þannig að þær stöllur munu þurfa að taka til hendinni.

Ætli Heidi Range sé liðtæk í ofnhreinsun?

Posted by Stebbi at 10:10 FH | Comments (2) | TrackBack

apríl 06, 2004

Ammli, Pan & Uppvakningar

Þrælgott ammli á föstudaginn fámennt en góðmennt og allir hámandi í sig hlaupvodka eins og þeir fengju borgað fyrir það, verði þér að góðu Logi.

Mikið var um góðar gjafir, m.a. wok-panna frá Auði systur minni, ljósaperur og skurðbretti frá Jósa, rauðvín og Herramannabækur frá (Rauðvínið hét Masi, hann stóðst ekki mátið :), sokka, Magic og skyr frá Sigga Palla & Dóru og loks frumsamið lag frá Svavari. Bjútifúl. Svo má ekki gleyma foreldrum mínum góðum sem gáfu mér glás af ferðapunktum frá Icelandair sem gera mér kleift að heimsækja þá Helga og Tóta í Danaríki í miðjum mánuðinum.

Eftir nokkuð sukk var haldið niðrí bæ en hópurinn tvístraðist snemma og ég hélt fljótt heim.

Daginn eftir kíkti ég svo í Smárabíó að sjá Pétur Pan með Margréti frænku minni en hún er fjögurra ára. Myndin var talsett á íslensku og mér þótti það umhugsunarvert að ég hafði ekki farið á mynd talsetta á íslensku í 19 ár, eða þegar ég sá Ronju Ræningjadóttur í Borgarbíói á Akureyri. Mikið vatn hefur runnið til sjávar á 19 árum og fannst mér talsetningin bara skítsæmileg. Reyndar fór myndin kannski dálítið fyrir ofan garð og neðan hjá yngstu áhorfendunum og vissulega hefði varla átt að leggja í að talsetja hana, ef að krakkarnir geta ekki lesið textann er hún líklega ekki við þeirra hæfi. Vissulega voru yngstu krakkarnir farnir að iða dálítið undir lok myndarinnar en Margrét var voða stillt þó henni hafi kannski verið farið að leiðast smá. En hún var samt ekkert hrædd við Kobba Krók (sem, í höndum Jason Isaacs, leit út eins og Gary Sinise í Reindeer Games..weird)

Á laugardagskvöldi leit ég svo með Svavari og Jósa á endurgerðina á Dawn Of The Dead og reyndist þar vera á ferðinni alveg ágætis filma, hröð, spennandi og yndislega kaldhæðin. Reyndar var búið að tóna aðeins niður ádeilu frummyndarinnar en við því er svo sem að búast á þessum síðustu og verstu. Hnakkarnir fara ekki í Kringlubíó til að sjá eitthvað social commentary á neysluhyggju og velmegun. En samt sem áður var þetta hin besta skemmtun og Ving Rhames er maðurinn!

PS: Stelpur, Ekki fara á þessa mynd ef þið eruð óléttar og strákar, skiljið óléttu kærusturnar/eiginkonurnar/viðhöldin/vinkonurnar eftir heima.

Posted by Stebbi at 12:14 EH | Comments (6) | TrackBack

apríl 02, 2004

020476

Hann á ammli í dag, hann á ammli í dag, hann á ammli hann Stebbi, hann á ammmmmmli í dag :)

Jibbíkóla!

Posted by Stebbi at 12:14 FH | Comments (16) | TrackBack

apríl 01, 2004

paris *edit* Því miður verð

paris

*edit*

Því miður verð ég að hryggja ykkur með þeim harmafregnum að ég tók þessa mynd ekki sjálfur, fann hana bara á netinu og ákvað að henda henni inn. Hefði svosem átt að taka það fram strax og því er hérmeð beðið afsökunar á því.

Posted by Stebbi at 03:12 EH | Comments (4) | TrackBack