« ágúst 2004 | Main | október 2004 »

september 23, 2004

220904

Það þarf að breyta nafni Bíllausa Dagsins í "Hey Það Er Bíllausi Dagurinn Á Morgun Svo Að Það Verður Engin Umferð Og Ég Kemst Miklu Fyrr Í Vinnuna" - Dagurinn.
Íslendingar elska bílana sína og að útnefna virkan dag sem bíllausan dag sýnir það og sannar að enn er á lífi hreinræktað bjartsýnisfólk.

"Hey ég veit, við skulum útnefna kaldan, virkan dag í september sem Bíllausa Daginn og bjóða frítt í strætó þann daginn. Fólk mun örugglega leggja bílunum sínum og dröslast út á stoppustöð, eitt og sér eða með krakkana í togi, til að sitja í köldum strætisvagni í stað þess að keyra hlýja fjölskyldubílinn á áfangastað."

Ég færi ykkur kveðju mína, þið hugrakka fólk sem tókuð strætó eða löbbuðuð í gær.

Posted by Stebbi at 09:46 FH | Comments (16) | TrackBack

september 15, 2004

Þjóðverjar, Svíar, plasttré og Gullbrá 2004.

Jænxúg!

Tónleikar þeirra kumpána á Kaffi Rósenberg um helgina (fös&lau) voru ansi vel heppnaðir, vel mætt bæði kvöldin og drengirnir í fínu formi. Jón Geir trommari vakti mikla athygli gangandi vegfaranda þar sem hann sat í horninu við gluggann og trommaði af lífs og sálarkröftum, dáldið eins og nokkurs konar fönkí gluggaútstilling í einhverri trendí tískubúð.

Óvissuspil kvöldsins var kona sem dansaði af bestu list upp við bandið og rambaði fram og til baka. Eitthvað hefur frúin verið í glasi en þó bar meira á óstöðugleika háhæluðu stígvélanna hennar, annar hællinn var hættulega skakkur og sífellt leit út fyrir að kvensniftin myndi steypast á sviðið eða fella (íran)kontrabassann hans Lofts um koll. Sem betur fer sluppu strákarnir með skrekkinn það kvöldið.

Á föstudagskvöldi bar mikið á hópi kátra Svía sem var mikið í mun að heyra hressa tónlist og reyndu sífellt að klappa upp bítið í hægari lögum hljómsveitarinnar. Um miðbik tónleikanna voru Svíarnir farnir á brott en aftur hitnaði í kolunum þegar hópur Þjóðverja birtist og þá fór giggið í hæsta gír, og staðurinn rokkaði feitt fram undir kl. 3 að morgni.

Á laugardagskvöldinu var nokkurn veginn sömu sögu að segja, jafnvel mátti finna sama hóp af Þjóðverjum í horninu. Það kvöld var einnig mætt önnur hress kona sem togaði pilsið sitt hálfvegis upp og sparkaði frá sér í trylltum dansi lengi kvölds. Ekki var plássinu fyrir að fara upp við sviðið og í eitt skipti mátti Svavar heita heppinn þegar konan rakst í hljóðnemann hans og mækinn sló næstum úr honum tennurnar. En verndardýrlingur kaffihúsabanda var á vaktinni þetta kvöldið og reddaði drengjunum.

Þó að vel og feitt hafi verið djammað (tónlistarlega séð) allt kvöldið þá kom hápunktur kvöldsins í lokin þegar hljómsveitin var klöppuð upp og Gummi gítarleikari flutti lagið Fake Plastic Trees eftir Radiohead.

Sannkölluð töfrastund þar, gó Gummi!

Eftir giggið á laugardagskvöldi fór ég og fékk mér pizzusneið með Svabba, Lofti og Kristrúnu og kvaddi þau síðan. Sem er synd og skömm því þannig missti ég af spaugilegasta atviki kvöldsins.


Á mánudaginn fékk ég mér spássitúr í góða veðrinu og tók myndir af miðbæ Reykjavíkur sem er kominn í hauststellingar.

Posted by Stebbi at 03:36 EH | Comments (4) | TrackBack

september 03, 2004

Enn á lífi

Mikil bloggleti á íslenska hlutanum þessa dagana. Kannski er maður bara orðinn svona gegnumsýrður af erlendum áhrifum eða kannski er ég bara hræddur við þessa blessuðu kommentaspammara sem að dæla athugasemdum við hverja færslu á þessari síðu, bjóðandi mér spennandi stinningarlyf og aðgang að öllu því systrafélagaklámi sem sjúkur hugur minn girnist.

Vissulega er hægt að losna við þessi kvikindi með einföldu patchi sem að ég þarf að hundskast til að ná í en líkt og danskurinn er ég "..latur andskoti þó ég hafi aldrei kynnst bretavinnu" (Þórhallur Ingi Halldórsson um Dani, janúar 2001).

Margt hefur drifið á daga mína síðan síðast var bloggað og sökum fyrrnefndrar leti ætla ég að segja það með myndum.


Gay Pride í Reykjavík - myndir teknar 07. ágúst 2004.

Svíþjóð og Danmörk - 11-16. ágúst 2004.

Sunnudagsbíltúr með Volvonbraki, vitum og varðkind - 29. ágúst 2004.

Hraun! spila á Kaffi List - 02. september 2004.

Posted by Stebbi at 11:05 FH | Comments (5) | TrackBack