« október 2004 | Main | desember 2004 »

nóvember 29, 2004

Þarna sit ég í tvistinum

Þarna sit ég í tvistinum á leið í vinnu á mánudagsmorgni, hef í einhverju letikasti ákveðið að hvíla hjólið á þessum mánudegi, og vagninn hossast til og frá. Tannlausir Úkraínubúar standa mótmælastöðu á forsíðu Moggans og nýkjörinn forseti þessa fyrrum sovétlýðveldis segist ekki vilja forsetaembættið ef að blóðbað fylgi.

Strætisvagninn spænir upp Hverfisgötuna, þýtur eins og smurð elding fram hjá Regnboganum og Austur Indía Félaginu og mér líður eins og statista í Speed nema Keanu Reeves er hvergi að sjá og vagnstjórinn er varla jafn fríður og Sandra Bullock. Ég gríp þéttingsfast í handriðið og býst við hinu versta þegar vagninn þýtur á gulu yfir Snorrabrautina og snarskrensar fyrir framan Hlemm. Vagnstjórinn hoppar út með snatri og ég hugsa að þarna sé annað hvort verið að hlýða kalli náttúrunnar eða tóbaksins.

15 sekúndum seinna kemur hann út með samloku í hendinni og við leggjum í hann á ný. Sé ekki alveg hvort það er túnfisksalat eða skinka sem við farþegarnir létum nærri því lífið fyrir.

Posted by Stebbi at 12:17 EH | Comments (9) | TrackBack

nóvember 16, 2004

Jæja, ekkert nýtt í fréttum

Jæja, ekkert nýtt í fréttum nema að utanríkissstefna Bandaríkjanna gæti breyst til hins verra (!) nú þegar eini maðurinn í núverandi ríkisstjórn BNA með snefil af samvisku og heila hefur ákveðið að segja skilið við Búskmanninn. Adios herra Powell, sjáumst eftir 4 ár.

Hérna heima eru kennarar í sálarkreppu og skólaárið 2004-05 hefur að mestu farið í Yu-gi-oh! spil og annað hangs. Bum clouds :(

Á föstudagskvöldið heimsótti ég fangor og horfði með henni og fríðum hópi á Ædol, voða gaman allt saman fyrir utan þá staðreynd að Get The Party Started með Pink er leiðinlegt lag og sumar stúlkurnar virtust vera að syngja um ost í lagi Brunaliðsins, Ástarsorg.

"Ost, alla mína daga / þessi er mín saga..."

Eftir Ædol var spjallað og skrafað og á Bíórásinni grófum við upp Revenge Of The Nerds, þá eðla grínmynd frá ári Orwells, 1984. Vissulega er þessi kvikmynd tímalaust meistarastykki......alveg þangað til þeir fara að breika.

Á laugardagskvöldið kíkti ég með Svavari á tónleika með hljómsveitinni Byltunni á Stúdentakjallaranum. Piltarnir voru fantagóðir en upphitunarhljomsveitin Saab á langa leið fyrir höndum.

Í gær ákvað ég að spretta úr spori á hjólhestinum og myndaði frosnu Reykjavík. Njótið vel.

Posted by Stebbi at 03:11 EH | Comments (4) | TrackBack

nóvember 12, 2004

Voðalega er Adolf Hitler eitthvað

Voðalega er Adolf Hitler eitthvað bústinn og sællegur að syngja í þættinum Ísland í Bítið.....nei, bíddu nú við, þetta er bara Helgi Pé.

Posted by Stebbi at 11:53 FH | Comments (6) | TrackBack

nóvember 11, 2004

Nokkrar tillögur fyrir nýjan þjóðsöng

Ó guðs vors lands, ó lands vors eitthvað,
við lofum þitt einasta eina
eitthvað, lalalala...við viljum þér gott
Íslands álar, skornir og djúpir
ossoframvegis

Enn og aftur eru uppi raddir sem vilja skipta út þjóðsöngnum okkar, hann þykir of hátíðlegur (!), tyrfinn og illsyngjanlegur á íþróttasamkomum. Bú-hú segir Stebbi, lærið andskotans lagið fávitarnir ykkar!

En, ef Ísland Ögrum skorið þykir ekki henta og Ísland Er Land Þitt þykir vera í væmnari kantinum þá tók ég hér saman lista af möguleikum:

Ísland eftir Gunnar Jökul heitinn af plötunni Hamfarir

Eitilhart en þó blíðlegt og þjóðlegt lag, hentar vel til söngs á kojufylleríum.

Horfðu á Björtu Hliðarnar eftir Sverri Stormsker

Grand lag með mjög svo jákvæðum boðskap "...hungursneyð er fjarri Íslands ströndum.." Hentar einkar vel öllu bjartsýnisfólki.

Stolt Siglir Fleyið Mitt eftir Gylfa Ægisson.

Rúllandi skemmtilegt lag sem jafnvel tregustu boltabullur ættu að muna. Ekki spillir þjóðernislegur textinn: "...Ísland, gamla Ísland, ástkær fósturjörð".

Slá Í Gegn eftir Valgeir Guðjónsson

Að vísu er ekki minnst á Ísland í þessari ljúfu ballöðu en samt, annað eins sameiningartákn fyrirfinnst varla í tónlistarformi þegar saman koma nokkrir Íslendingar og fáeinir lítrar af sterku áfengi.

One eftir U2

Hey, það kunna allir One. Svo er Bono svo mikill mannavinur að við getum ekki klikkað á að nota þennan U2-smell sem þjóðsönginn okkar.

Posted by Stebbi at 06:50 EH | Comments (7) | TrackBack

nóvember 04, 2004

%&$#!

Jæja, Búskmaðurinn hefur reddað sér 4 árum í viðbót í Hvíta Húsinu eftir að hafa í fyrsta skipti unnið forsetakosningarnar í BNA. Á fyrsta kjörtímabili réðst hann inn í Afganistan, Írak og kafnaði nærri því á snakkbita meðan hann horfði á amerískan ruðning í sjónvarpinu. Mig hryllir við því að spá hvert stefnt sé á þessu kjörtímabili.

Önnur "gleðitíðindi" voru þau að í kosningunum á þriðjudaginn staðfestu 11 ríki Bandaríkjanna að skilgreina hjónaband sem sameiningu karls og konu. Þeim finnst víst bara eitthvað svo subbulega rangt við að sjá tvo karla í smóking heita hvorum öðrum eilífri ást og mata hvorn annan á brúðartertu. Að maður tali ekki um þessar hættulegu lesbíur sem vilja kannski gera slíkt hið sama!

Hættulegir tímar framundan kæru vinir. Haldið ykkur fast.

Posted by Stebbi at 01:16 EH | Comments (4) | TrackBack