« febrúar 2005 | Main | apríl 2005 »

mars 16, 2005

Bostonbúar, árshátið, jökulkuldi og Jon Stewart

Í þessum skrifuðu orðum gaular vindurinn hressilega í stigagangnum hjá mér líkt og hann hefur gert síðustu daga. Honum hefur einnig fylgt fimbulkuldi sem hefur loksins gefið þessu landi okkar nafn með rentu.

Á föstudaginn síðasta hitti ég þær Jennifer og Kiran, tvær ágætar stúlkur frá Boston í Massachusets, sem voru hér á landi í helgarfríi. Við mæltum okkur mót á Prikinu þar sem Fjórði Kynþokkafyllsti Maður Íslands (skv. könnun Rásar 2) hitti okkur ásamt Magga. Einnig hékk Jósi með okkur í nokkra stund þar til vinnan kallaði.

Jennifer kom færandi hendi og gaf mér Boston Red Sox hafnaboltahúfu ásamt tveimur pökkum af Twinkies, en það ljúfmeti fæst ekki selt hér á landi (var víst reynt að selja en enginn vildi kaupa). Þar sem Idol-partý var í fúll swing á Prikinu var bjórinn á tilboði og því var drukkið á við tvo Íra þetta kvöld. Seinna færði hersingin sig yfir á Ara í Ögri en stuttu seinna þurfti Gummi að kveðja og þá var röltið tekið um ískaldan miðbæinn og miðja Reykjavíkur skoðuð.

Eftir stutt stopp á fimmtu hæðinni var stefnan tekin á Vegamót sem að er satt að segja orðin af vítisbúllu, alla vega miðað við krádið sem hékk þar þetta kvöld. Upp úr 4 var svo haldið heim á leið og kvöldið kallað gott.

Laugardagskvöldið fór svo í árshátíð Símans sem að þessu sinni var haldin í Haukahúsinu í Hafnarfirði. Í ár var ansi vel haldið á spöðunum og árshátíðin hin glæsilegasta og sýndi mitt eðla fyrirtæki meira segja þann höfðingskap að bjóða upp á rútuferðir í gillið og svo aftur heim (enda ekki vanþörf á, þegar maður leit út um gluggana var dálítið eins og maður væri kominn til tunglsins, slík var auðnin). Í ár var þemað Hollywood og glæsileiki og því til stuðnings voru þjónustustúlkur kvöldsins allar í gervi Marilyn Monroe. Það var allt gott og blessað nema að þegar leið á kvöldið og þreytan byrjaði að segja til sín hjá stelpunum (að þjóna 1400 manns hlýtur að vera lýjandi) þá urðu margar Marilýnurnar ansi sjúskaðar að sjá. Samt var þetta hin besta skemmtan. En af hverju endar Stebbi alltaf á Dubliner eftir árshátíð? Eins og ég þoli ekki þennan stað?!?

Sunnudagurinn var kaldur, kaldari en allt sem kalt getur talist. Kaaaaaaaaaldur. Ég hitti Jennifer og Kiran aftur, lét þær bjóða mér að borða og sýndi þeim Sódómu Reykjavík á DVD að launum.

Nú sit ég hlæjandi eins og brjálæðingur yfir bók Jon Stewart (og meðhjálpara) America (The Book): A Citizen's Guide to Democracy Inaction

Þessi bók er hreinasta snilld, enda útskýrir hún hvers vegna bandarískt lýðræði er besta lýðræði í heimi og hví þjóðir um allan heim berjast um að verða sér úti um skammt af þessu fantagóða lýðræði. Bókin er byggð upp eins og námsbók (það er meira að segja merkimiði innan á spjaldinu, rétt eins og í gaggó) og fyrir utan að hlæja mig vitlausan er ég að læra allan andskotann með því að lesa þessa skruddu, ekki bara um bandarískt stjórnarkerfi heldur líka líka lítt þekktari staðreyndir eins og td. að Thomas Jefferson fílar Halle Berry í ræmur.

Reddið ykkur eintaki, það margborgar sig.

Posted by Stebbi at 08:52 EH | Comments (9) | TrackBack

mars 08, 2005

Ísbolti & regnbogar

lagoon.jpg

Sunnudagurinn fór í frábæran bíltúr til Jökulsárlóns með stuttum stoppum hjá Seljalandsfossi & Skógum. Við Bragi, Jósi, Högni og Amy kærastan hans Högna héldum austur á tveimur bílum í blíðskaparveðri. Báðir fossarnir voru í essinu sínu og á Skógum mátti greinilega sjá tvo regnboga í mistrinu. Þegar á Jökulsárlón var komið kíktum ég, Bragi og Jósi út á hálf-freðið lónið (tíhíhí..."hálf-freðið lón!") og storkuðum örlögunum með því að leika okkur í fótbolta ásamt öðru sprelli. Þegar kvölda tók voru grillaðar SS pylsur áður en haldið var heim á leið.

Flottur dagur í alla staði.

Posted by Stebbi at 01:08 EH | Comments (5) | TrackBack

mars 05, 2005

Ótrúlegt

Fyrst hannaði einhver þessi ósköp. Næst var einhver fenginn til að byggja draslið. Að lokum keypti einhver braggabústaðinn....

braggabustadur.jpg

Posted by Stebbi at 12:45 FH | Comments (53) | TrackBack